08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

140. mál, landhelgisvörn

Björn Kristjánsson:

Mjer þykir leitt, hversu dauft hæstv. forsætisráðherra (J. M.) tekur í þetta mál. Því það liggur ekki fyrir nein skipun til stjórnarinnar um, að þetta skuli framkvæmt nú þegar. Þó að standi: „skuli kaupa“, þá verður stjórnin auðvitað að hafa hæfilegan frest. Hún verður að kynna sjer, hvort hentugra muni að taka stærra eða minna skip, alveg eins og þó samþykt væri þingsályktunartill. um, að hún skyldi undirbúa málið. Hæstv. stjórn horfir í kostnaðinn, sem af þessu leiðir, eins og líka fleiri. Það er vitaskuld. Hann verður auðvitað æðimikill En þó held jeg ekki, að hann verði hátt á þriðja hundrað þús. kr., því þar frá dragast sektirnar. Og þær nema ekki litlu, þó að strandvarnirnar hafi oftast verið illa reknar. Það má gera ráð fyrir, að svona skip eða bátur verði talsvert árvakrari heldur en „Islands Falk“, og má því búast við miklum tekjum í aðra hönd.

Það kann vel að vera, að þörf sje fyrir fleira fólk en gert er ráð fyrir í frv. En nú hefir komið til mála að gera íslenskum skipstjórum að skyldu að hafa siglt á svona skipi. Og gæti það farið saman við þetta, þá væri það mjög hentugt og gæti bætt upp þennan skort án aukins kostnaðar eða kostnaðarlítið. Jeg vænti svo þess að hv. deild samþykki frv., enda þótt hæstv. stjórn sje því mótfallin. Því hún er ekkert of bundin af því.