14.07.1919
Neðri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

50. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Flm. (Bjarni Jónsson):

Það var eitt sinn sagt um Hannibal, að hann kynni að sigra, en ekki neyta sigursins. Nú vildi jeg óska, að sama rættist ekki á Íslendingum. Svo sem öllum er vitanlegt, hafa þeir nýlega unnið þann sigur, sem mestur hefir verið, þar sem er viðurkenningin á fullveldi þessa lands, sem þjóðin þó glataði 1262. En þó að svo giftusamlega hafi til tekist nú með þennan sigur, þá má enginn halda, að nokkurri ábyrgð sje ljett af mönnum, eða skoða megi fullveldið eins og einhvern egypskan eirstöpul, sem standa muni um aldur og æfi aðhlynningarlaust og án umhugsunar. Hafi Íslendingar nokkurn tíma þurft að vera á verði um rjettindi lands síns, þá þurfa þeir þess ekki síst nú. einmitt þegar sigurinn út á við er fenginn og fara á að njóta ávaxtanna, sem hann á að bera og getur borið, ef rjett er að farið. Enda er þá og vonandi, að þeir kunni að gæta fullveldis landsins, kunni að gæta rjettinda þjóðarinnar, og þetta frv. á að miða að því að hjálpa þeim til þess. Því hvað er landlaus konungur? Ekkert! En hvað er landlaus þjóð? Hún er afhrak! forsmáð og fyrirlitin bæði í sínu eigin landi og annarsstaðar. Landflótta og flakkandi skal hún vera á jörðinni, eins og vjer höfum dæmin um, þar sem Gyðingar eru. Þeir hafa orðið að flækjast land úr landi vegna þess, að þeir voru landlaus þjóð. Og hvað verður um framtíðarvonir hinnar íslensku þjóðar, ef hún lætur sjer ekki annara þjóða víti, og reynslu sjálfrar sín á umliðnum öldum, að varnaði verða, og gætir með árvökrum augum landsins, sem henni er trúað fyrir?

Þjóðin hefir verið fámenn og fátæk, því að hún hefir orðið að lifa við ofbeldi og áþján erlendrar þjóðar. Eðlileg afleiðing af kúguninni var fátæktin og eymdin, og að kynslóðirnar voru myrtar ófæddar. En af hverju kom sú kúgun? Af tómlæti og skilningsleysi landsmanna. Hefðu Íslendingar ætíð gætt rjettar síns, þá skiftu menn ekki þúsundum í þessu landi, heldur miljónum. Sama framförin hefði þá verið hjer á landi sem í öðrum Norðurlöndum. En þar hefir fólksfjöldinn tífaldast frá þeim tíma, er Ísland gekk erlendum konungi á hönd. En talið er, að þá hafi verið hjer 120.000 manns. En það var kúgunin erlenda, sem stöðvaði Íslendinga í þróuninni, en ekki það, að landið sjálft tæki stakkaskiftum. Það var æ hið sama og áður.

„Landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar; himininn heiður og blár, hafið var skínandi bjart“ — og er það enn þann dag í dag. Og hafið er eigi að eins skínandi bjart, heldur og fisksælt. Og landið er eigi að eins fagurt og frítt heldur og auðugt á marga lund. Sá sannleikur firnist ekki. En hvaða vit væri þá í því að hafa nú á boðstólum alla sína dýrustu hluti erlendum kaupmönnum, opna þeim aðgang að öllum nytjum okkar ágæta lands, nú þegar vjer getum ráðið yfir þeim sjálfir bæði í orði og á borði? Nú þegar vjer getum tekið aftur upp þráðinn, sem nær því var slitinn sundur á svartnættistímum þjóðarinnar. Nú þegar þær kynslóðir eiga að fæðast og fylla landið, sem áður var varnað fæðingarinnar? Eða hver er sá, að hann þori að fylla landið útlendingum eða selja auðsuppsprettur þess erlendu auðvaldi, svo afkomendur vorir verði landlausir, þegar þeim loks fjölgar, svo að vjer eigum ef til vill á hættu, að ókomnar kynslóðir deyji úr hungri, fyrir vömm vora? Vonandi láta menn sjer nú að varnaði verða víti forfeðra vorra, sem ljetu alt af hendi, verslun, siglingar og sjálf skipin, og styðja að því, að tryggja sem fyrst slíkar takmarkanir á rjetti útlendra manna, sem frv. þetta fer fram á; að öðrum kosti vilja menn ekki sjá borgið framtíðarvonum þessa lands og þessarar þjóðar.

Jeg get getið þess, að frv. er tekið nær því óbreytt eftir stjórnarfrv. frá 1901. Þóttist jeg geta tekið það upp með smábreytingum, og þótt jeg vilji ekki segja, að hjer sje alt, sem þarf að vera í slíku frv., þá er stefnan laukrjett, — að reisa skorður við því, að fasteignir, auðugar afllindir landsins o. fl. lendi í höndum erlendra manna. Hafa aðrar smáþjóðir, og þó stærri en vjer, sjeð þá hættu, sem þessu er samfara. Þannig var nýlega mikið kvartað um það í Noregi hve Englendingum gengi vel að ná eignarrjetti á veiðiskógum, fossum o. fl. o. fl. þar í landi. Gerðu Norðmenn þá ráðstafanir til að sporna við þessu og hafa síðan verið mjög varir um sig. Mættum vjer vel taka þá til fyrirmyndar. Þykir mjer ólíklegt, að til sje nokkur, sem álíti þörfina minni hjer en t. d. í Noregi, þar sem öllum er vitanlegt, að á síðustu áratugum hefir hópur manna haft það fyrir augum að auðga sjálfa sig á því að selja útlendingum skika úr landinu, fossa, vötn eða annað. Þessar ,,Ættjarðarætur“, sem jeg hefi leyft mjer að nefna svo, hafa þegar unnið landinu stórtjón með fjeglæfrum sínum og prangi með rjettindi landsins, enda selt alt, sem þeir hafa komist yfir, og meira til, svo að jafnvel er sagt, að þeir hafi selt norðurljósin og landskjálftana. Nú yrði það aldrei mikill skaði þjóðinni, þó satt væri um sölu norðurljósanna og landskjálftanna, en af öðru, sem selt er og skaði er að, má t. d. nefna rjettindi til vatnsorkunnar. Jeg er raunar ekki haldinn af þeirri þjóðtrú að vatnsorka sje oss uppspretta gulls og auðæfa, en þó er hún vafalaust verðmæt. Og ef þeir, sem selt hafa, gerðu það með rjettri heimild, og jafnvel þótt svo væri eigi, þá hafa þeir að sínu leyti svift þjóðina mikilsverðum hlut og leitt yfir hana bráða hættu.

Jeg hefi þess vegna bent á þá almennu hlið við þetta mál, að jeg vildi gera mönnum ljóst, hversu varhugavert það er þeirri þjóð, sem er í vexti og uppgangi, að leyfa ættjarðarætum að selja undan sjer landið, og verða svo landlaus þjóð, heimsk, siðlaus og hugsunarlaus undirlægjuþjóð, í stað þess að halda áfram að vera kjarni norrænna þjóða, að vera íslensk þjóð, vitur þjóð og vel mentuð og framkvæmdasöm þjóð, og geyma siðu og menningu þá, sem best er og einkennir hinn ágætasta þjóðastofn, sem er hinn indógermanski, og þá einkum hinn gotogermanski og innan hans hinn norræni þjóðabálkur.

Jeg leyfi mjer að óska þess, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.