13.08.1919
Neðri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

50. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Sveinn Ólafsson:

Jeg á brtt. á þgskj. 310, sem hv. frsm. (E. A.) hefir minst á. Jeg vænti þess, að deildin taki till. vel, því að hún skýrir efnið og er til bóta. Það sem vakti fyrir mjer með þessari brtt., var það, að útiloka ekki þingvilja, ef um það væri að ræða að veita leyfi til vatnorkunota, en eftir frv., eins og það er nú, má líta svo á, að stjórnin sje einvöld um undanþágu frá 4. tölulið 1. gr.

Eins og menn vita, þá er það efst á baugi, og sennilegt, að því verði svo fyrir komið, að þingið verði látið skera úr því, hvort veita skal leyfi til vatnsfallavirkjunar í stórum stíl eða ekki. Einmitt þess vegna þarf þessi undantekning frá fortakslausu valdi stjórnarinnar til að leyfa útlendingum að eiga og nota fasteignir að vera til.

Fleiri orð um þetta virðast óþörf en jeg vil nota tækfærið til að benda hv. nefnd á 4. lið brtt. á þgskj. 281. Jeg veit eigi, hvort nefndin hefir athugað það, að löndum vorum vestan hafs tæmist við og við arfur hjer og fasteignir falla í arfahluta þeirra. Eftir frv. er enginn munur gerður á þeim og öðrum útlendingum; til þeirra ná að eins almenn ákvæði um, að stjórnin geti veitt 5 ára frest til að koma málinu í löglegt horf. Jeg vil skjóta því til hv. nefndar, hvort ekki sje ástæða til að athuga þetta nánar. Jeg skil vel, að löndum vestra þyki hart að þurfa að farga fasteignum sínum hjer, sem geta verið forn ættaróðul, og með minningunum tengja þá við gamla landið, enda sje jeg enga hættu í því fólgna, að þeir fái að eiga hjer slíkar eignir, án þröngra kosta, og meinalaust vari oss, þótt óðulin seiddu einhvern þeirra heim.

Jeg er ekki við því búinn, að bera hjer fram till. um þetta efni; jeg vildi að eins vekja eftirtekt hv. nefndar á því, hvort ekki væri ástæða til að fara þarna vægara í sakirnar en frv. gerir.