25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Gísli Sveinsson:

Jeg ætla hjer ekki í neinn kolamokstur, og mjer hefir ekki hitnað svo af kyndingu þeirri, er hjer hefir fram farið um skeið, að jeg sje í neina geðshræringu kominn.

En jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt., sem mjer skilst, að hv. fjárveitinganefnd, að meiri hluta, hafi hallast að, við 15. gr. 23. e., að styrkur sá, sem þar er ánafnaður einum orðabókarmanninum, Þórbergi Þórðarsyni, sje hækkaður upp í 1800 kr. Þessi maður, Þórbergur Þórðarson, hefir sótt um 1800 kr. veitingu, eða 1200 kr. hækkun. Hefir hann haft 600 kr. undanfarin ár til að vinna að íslensku orðabókinni. En fyrir þessar 600 kr. hefir hann, sem að líkindum ræður, ekki getað unnið neitt slíkt, er vera ætti og hann hefði sjálfur viljað.

Þessi maður hefir verið tekinn af Alþingi til að vinna við orðabókina, sem Alþingi hefir um hríð veitt, og veitir væntanlega áfram, fje til. Og meining Alþingis mun vera, að þetta verk sje sæmilega unnið. Það, sem hann sjerstaklega hefir haft með höndum, er að safna orðum úr íslensku alþýðumáli, sem ekki hafa komið í orðabækur áður, nje heldur aðrar bækur. Það gefur að skilja, að mikill fjöldi orða íslenskrar tungu finst alls ekki í bókum og ritum, heldur að eins í mæltu máli. Það er mesti fjöldi orða, sem aldrei hefir verið skrifaður, nema þá ef til vill í brjefum manna á milli. Sum þessi orð eru einkennileg og æfagömul, og bera vott um sjerstaka menningu á sumum stöðum, og sjerstakt íhald á sumum stöðum, sem sjálfsagt er, í menningarskyni, að varðveita.

Það er líka hverjum ljóst, að ef ræða er um fullkomna orðabók, sem menn munu ætlast til, og Alþingi sjálfsagt vill að verði, þá getur þetta ekki orðið fullkomin orðabók, nema alþýðumálsorðin sjeu tekin með. Þess vegna hefir þessi maður fengið veitingu á starfi við orðabókina, að hann á sjerstaklega að vinna að þessu starfi. Nú hefi jeg ekki heyrt nokkurn efast um, að þessi ungi maður sje allra manna færastur að vinna þetta verk. Hann hafði sýnt alveg einstakan áhuga á þessu starfi áður en hann var ráðinn að orðabókinni. Hann er efni í einstakan fræðimann, auk þess sem þar er um mjög einkennilegar gáfur að ræða á mörgum sviðum.

Þessu starfi er svo háttað, að maðurinn verður að ferðast um meðal almennings og safna orðum. Til þess þarf mikla nákvæmni og ástundun. Sá, er það gerir, getur ekki gert það að marki, nema hann sje vel fróður og vel lærður. En tíminn, sem að þessu verður unnið, er að sumrinu, og má ekki minni vera en 4 mánuðir sumarsins. Þegar þess er gætt, að sumartíminn er sá tími, sem von er um atvinnu, sæmilega borgaða, þá er ljóst, að þeim tíma yrði niður slept af honum, ef hann fengi sæmilegan styrk til starfans. En ella yrði hann að sleppa þessum tíma, ef hann yrði að nota sumarið til að hafa ofan af fyrir sjer, og væri þá ver farið en heima setið. Hann gæti þá ekki gert þetta, sem hann er að kominn og manna færastur til. Jeg tel þess fulla nauðsyn, að honum sje gert kleift að ferðast um 4 mánuði að sumrinu og safna orðum. En það er jafnvíst öllum, er til þekkja, að þetta næst ekki, nema einu sumri sje varið á hvert einstakt svæði. Á veturna vinnur hann að því, að raða orðunum, skipa þeim niður, vinna að hinum vísindalega hluta þessa verks. Og yrði þó með þessum styrk, 1800 kr., um það að ræða, að þessi maður yrði að stunda einhverja aðra atvinnugrein með, til þess að geta lifað.

Þessi maður, Þórbergur Þórðarson, hefir farið fram á alls 1800 kr. Það er svo hóflegt, að það er alveg einstakt í styrkbeiðnum, að menn vilji vinna svo mikið starf fyrir slíkt kaup. En það er kunnugt þeim, er til þekkja, að þessi maður er einkar sparsamur og gerir ekki miklar kröfur til lífsins. Mun hann framfylgja því eftirleiðis, að gera ekki háar kröfur, en inna eitthvert starf af höndum fyrir það fje, sem honum yrði veitt.

Hygg jeg því, að hv. Ed. hafi ekki tekið upp 1800 kr. fjárveitingu af því, að henni hafi ekki verið það ljóst, að minna gat hjer ekki komið til mála, og líka af því, að þá var ekki búið að samþykkja að efna til orðabókar á þann hátt, sem nú hefir orðið ofan á. Því að sjálfsagt er það svo, að hv. deild hefir ætlast til, að vel væri að verkinu unnið. Nú hafa verið ráðnir 2 menn aðrir, og þarf þá að vera í þessari grein einn maður, vel fær. Þarf þá að gera honum mögulegt að vinna þannig, að eitthvert viðlit sje, að það komi að haldi.

Vona jeg því, að hv. deildarmenn taki þessari till. ekki ver en hv. fjárveitinganefnd hefir gert, en fylgi henni að meiri hluta. Meira er ekki krafist.