15.09.1919
Neðri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

130. mál, hafnalög fyrir Vestmannaeyjar

Frsm. (Björn R. Stefánsson):

Jeg tel ekki þörf að eyða mörgum orðum að frv. þessu. Vestmannaeyjar og útvegurinn þar er svo víðkunnugt, að ekki er þörf að fjölyrða um hann. Breytingin, sem nefndin hefir gert á lögunum frá 1913, er fólgin í hækkun á fjárframlagi ríkissjóðs. En þessi hækkun stafar aftur af því, að vinna og efni er nú miklu dýrara en þá. Enn fremur skal jeg geta þess, að það hefir komið í ljós, sem kunnugt er, að hafnarvirkið þarf að vera traustara en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta hvorttveggja hefir aukið kostnaðinn, eins og sjá má á frv. Í nál. er þess getið, að það sje skylda ríkissjóðs að styðja sjávarútveginn eftir efnum og ástæðum, þar sem hann er einn af aðaltekjulindum landssjóðs, en af því fátt eitt af því, sem gera þarf, verður gert í einu, þá sje þó rjett að láta þau fyrirtæki ganga fyrir, sem mest er von um að auki og tryggi veiðiskapinn að verulegum mun, og að Vestmannaeyjar sjeu einn þeirra staða, er nefndin sammála um.

Enn fremur hefir nefndin gert þá breytingu á lögunum frá 1913, að eftirlitið með verkinu skuli skerpt af hálfu ríkisins, til þess að það verði sem tryggilegast af hendi leyst. Stjórninni er heimilaður íhlutunar- og eftirlitsrjettur, til þess að síður þurfi að óttast, að verkið verði ekki að þeim notum, sem til er ætlast. Þar sem ríkið leggur jafnmikið fje til, sem hjer um ræðir, sem hreinan styrk, og ábyrgist þrefalt hærri upphæð, þá verður að teljast eðlilegt, að stjórnin hafi það eftirlit með verkinu, sem hún telur með þurfa.

Þá skal jeg geta þess, að sú prentvilla hefir slæðst inn í brtt., að þar stendur „reikningshald“, en á að vera reikningshaldi, og vona jeg, að þetta megi leiðrjetta fyrir 3. umr. sem prentvillu, án þess un það þurfi að flytja sjerstaka brtt.