09.09.1919
Neðri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

141. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg hefi ósköp litlu við það að bæta, sem jeg sagði áðan og við síðustu umr.

Það var ekkert í ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), sem jeg þarf að athuga, nema þetta, að hann lagði áherslu á, að kröfurnar um launahækkun yfirsetukvenna myndu vera orðnar til fyrir forgöngu nokkurra einstaklinga í þeirri stjett, Jeg býst nú við, að það sje svo hjá fleiri embættismannaflokkum, að ekki hafi allir átt upptökin að slíkum kröfum. En það er fullvíst, að víða vantar ljósmæður, og þó engar kröfur hefðu verið gerðar um launahækkun, er þó það eitt nóg til þess, að Alþingi ætti að telja sjer skylt að bæta kjör þessara starfsmanna.

Mjer þykir leiðinlegt, að það skuli vera vefengt, sem við segjum, er stöðu okkar vegna hljótum að vera þessu kunnugastir, um skortinn á ljósmæðrum. Jeg talaði við starfsbróður minn í morgun, og sagði hann mjer, að í sínu hjeraði væru allar yfirsetukonur farnar, nema ein, og henni hefði honum tekist að halda með miklum eftirtölum og gegn því, að henni væru greiddar 600 kr. í laun (G. Sv.: Hvar er það?). Á Austurlandi. Í mínu hjeraði vantar oftast tvær eða þrjár. Þetta er ljós vottur um þörf endurbóta á þessu sviði.

Þá var það hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), sem auðvitað mælti með till. sinni. Hjelt hann því fram, að hann vildi ekki breyta því skipulagi, sem nú væri á. Vildi jeg sjerstaklega athuga það, sem hann sagði, að annaðhvort væru yfirsetukonur starfs menn ríkisins eða hjeraðanna, og eftir því ætti að greiða þeim að fullu úr sjóði annarshvors. Jeg sje ekki nokkurn hlut á móti því að breyta þessu, þó þetta hafi verið svo áður. En það er alls ekki eins dæmi, að landssjóður og hjeraðasjóðir skifti á milli sín að borga starfsmönnum. Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) er að minsta kosti kunnugt, að svo hagar til um starfsmenn símanna, t. d., að þeim er borgað að nokkru leyti úr ríkissjóði og að nokkru leyti úr sveitarsjóði. Vjer vitum um kennarafrumvarpið, sem hjer er á ferð. Þar er gert ráð fyrir hinu sama, og þó jeg viti, að hv. sami þm. vilji breyta þessu einnig, þá býst jeg ekki við, að hann fái því framgengt.

Annars verð jeg að segja, að mjer finst, sem þessir starfsmenn ættu fult svo mikla heimtingu á því að heita starfsmenn ríkisins eins og ýmsir aðrir. Vjer getum lítinn mun gert á verksviði þeirra og verksviði lækna. Væri það því fullsamræmilegt, að því leyti, þótt alt væri sett á ríkissjóð.