08.07.1919
Neðri deild: 5. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

17. mál, bráðabirgðainnflutningsgjald af síldartunnum og efni í þær

Fjármálaráðherra (S. E):

6. mars 1919 voru þessi bráðabirgðalög gefin út. Ástæðan til þess, að þau voru gefin út var sú meðal annars, að hjer á landi lá mikið af dýrum tunnum, og var því þeim er þær áttu erfitt að keppa við þá, sem fengu ódýrari tunnur. Þótti því rjett að leggja skatt þennan á og jafnframt var það gert til þess að útvega landssjóði tekjur.

Það er ekki unt að segja fyrir, hve miklar tekjur muni af þessu fást, en jeg skal geta þess, að útlit er fyrir, að innflutningur á tunnum muni ekki verða eins mikill og venjulega. Jeg leyfi mjer að leggja til, að frv. verði vísað til fjárhagsnefndar að lokinni umr.