03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

135. mál, húsagerð ríkisins

Sigurður Sigurðsson:

Hv. frsm þessa frv. (S. St.) gat þess, að það væri flutt samkvæmt tilmælum stjórnarinnar. Mjer dettur ekki í hug að rengja hann um það. Jeg stóð upp til að lýsa því yfir, að jeg get ekki aðhylst frv. eins og það liggur fyrir, og mun jeg því greiða atkvæði móti því. Þó vildi jeg gera grein fyrir afstöðu minni til þess með nokkrum orðum.

Það hafa nú verið samþykt hjer heimildarlög um lántökur til brúargerða, og þær brýr, sem áður voru í fjárlögunum, eru nú teknar af þeim og eiga, samkvæmt þessum nýju lögum, að byggjast fyrir lánsfje.

Nú er hjer komið fram annað frv. af líku tægi, sem heimilar stjórninni að taka stórlán til húsabygginga. Það er með öðrum orðum, að stjórninni heimilast að taka lán til ýmissa þeirra framkvæmda, sem áður hafa staðið í fjárlögunum. Þetta tel jeg miður heppilega fjármálaleið. Um sjálft frv. er það að segja, að þó flestum komi saman um, að landsspítalinn sje nauðsynleg stofnun, þá blandast fáum hugur um, að fresta verður byggingu hans fyrst um sinn, af ýmsum ástæðum.

Öðru máli er að gegna um viðbótina við Kleppsspítalann. Það er mjög aðkallandi og er þegar talsvert undirbúið. Jeg hefi heyrt, að hún mundi kosta alt að ½ milj. kr.

Þá er íbúðarhúsið á Hvanneyri. Það var tekið upp í fjáraukalagafrv. fyrir 1918 og 1919, og áætlaðar til þess 60 þús. kr. Það er vitanlega bráðnauðsynlegt, að það hús verði reist á næsta ári. En jeg sje ekki, að hjer sje um stærri upphæð að ræða en að vel megi taka hana í fjárlögin fyrir næsta fjárhagstímabil. Jeg skal ekki segja. hvað þetta hús muni kosta, en jeg hygg, að það fari ekki fram úr 100–120 þús. kr.

Viðvíkjandi byggingum á Eiðum hefi jeg ekki heyrt fyr en nú, að það væri svo mjög aðkallandi að bæta við gamla skólahúsið þar. Það var ekkert á það minst í fyrra, þegar frv. um stofnun skólans lá hjer fyrir þinginu, að nauðsyn bæri til að auka við bygginguna.

Samkvæmt því, er jeg nú hefi sagt, verður það ljóst, að sjálfsagt er, að Hvanneyrarbyggingin verði tekin upp í fjárlög. En svo gæti það komið til mála að heimila stjórninni með lögum að taka sjerstakt lán til að auka við geðveikrahælið á Kleppi. Hina liðina í frv. má þá fella, eða fella alt frv., en flytja svo nýtt frv. um viðbótarbygginguna á Kleppi eina út af fyrir sig, því að hún má ekki dragast hins vegar getur skólahúsið á Eiðum beðið, og sama er að segja um landsspítalann, enda er stofnun hans óundirbúin að flestu leyti.