22.09.1919
Neðri deild: 70. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

135. mál, húsagerð ríkisins

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg vil taka það fram út af byggingunni á Hvanneyri og 60 þús. kr. fjárveitingunni til hennar, að það fje var að eins til þess veitt að byrja á verkinu, og hafði stjórnin ekki gefið neinar yfirlýsingar um, að það mundi duga. Það lá fyrir fjárveitinganefndinni teikning yfir bygginguna, og eftir henni átti húsið að kosta um 200 þús. kr. En fjárveitinganefnd þótti sú upphæð of há. Enda vantaði þá líka skýrslu um, hvort hægt væri að byggja ofan á brunagrunninn. Húsameistari Guðjón Samúelsson skoðaði grunninn, að tilmælum stjórnarinnar, og úrskurðaði hann ónýtan. Gerði hann svo nýja teikningu og samkvæmt henni á húsið að kosta 130–140 þús. kr. Á þessari áætlun bygði fjárveitinganefnd, og sá ekki annað en það yrði að setja húsið í húsagerðarfrv., til þess að fá það fje, sem á vantar. En það er víst, að fáist ekki fjeð, verður að hætta við bygginguna, og afleiðingin af því verður sú, að skólinn getur ekki byrjað að starfa haustið 1920. En þessi 60 þús. kr. upphæð var að eins sett inn í fjárlögin til þess, að hægt væri þegar í sumar að byrja á byggingunni.