15.09.1919
Neðri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

153. mál, aðflutningsgjald af kolum

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vildi leiðrjetta dálítinn misskilning, sem kom fram hjá hv. þm. N.-Ísf (S. St.), og að nokkru leyti líka hjá hv. 2. þm. Árn. (E. A.). viðvíkjandi gróðanum á landsverslunarkolunum.

Það var alveg rangt hjá hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að það græðist á þeim kolum, sem nú eru seld í landinu. Hitt getur átt sjer stað, að eitthvað græðist á því, sem flyst inn hjer eftir. En kolin eru nú komin upp í 70–80 shillings í Englandi, og við það bætist ýms kostnaður, og svo fragtin, og allir vita, hvernig hún er. Svo ekki verður hægt að selja kolin hjer með ábata, þó tonnið kosti 200 krónur.

Eins var það missögn hjá hv. 2. þm. Árn. (E. A.), að sonur eins af landsverslunarforstjórunum hafi keypt mikið af kolum fyrir landið í Englandi. Það er alls ekki svo, og vona jeg að geta fært áþreifanlegar sannanir fyrir því við 3. umr., ef það þykir nokkru varða.

En þessi skattur á kolunum, sem hjer er verið að ræða um, er ógn eðlilegur. Því eins og allir vita, var mikið af kolum í landinu um áramót, sem kostuðu hjer 300 kr. tonnið. Það mun hafa verið 12–14 þús. tonn alls. En svo voru kolin sett niður í 200 kr. tonnið, og varð tapið þannig, þegar til kom, um 1,200.000 krónur. En svo græddist aftur um 200.000 krónur á öðrum kolum, svo tapið er nú ca. 1 miljón, eins og menn vita. Þetta upplýstist strax við 1. umræðu málsins, og jeg sje ekki aðra leið heppilegri en reyna að vinna þetta tap upp sem fyrst. Því jeg er hræddur við að draga það á langinn, vegna þess að miklar líkur eru til verðfalls, bæði á þessari vöru og ýmsum öðrum, eftir nokkur ár. Og þá verður slíkur skattur sem þessi er miklu hættulegri en nú. Það er best að ná upp sem mestu, meðan kolin eru sjálf í háu verði.

Það kann að verða heppilegt að hætta sölu fyrir 1. júlí, en þó gæti verið ástæða til að hætta sölunni ekki þá. Ef þau kol, sem landsverslunin á nú, gengju upp, og útlitið væri líkt og nú um kolaverð í Englandi, þá gæti svo farið, að stjórnin fengi kolafarm frá Ameríku. Og ef kaupmenn vildu ekki ráðast í að kaupa kol, gæti það orðið til þess, að ekki yrði búið að selja kolabirgðirnar fyrir 1. júlí. Annars er það tilætlunin, að stjórnin hætti kolasölunni svo fljótt sem hægt er.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) talaði um kolaöskuna. Það er satt, að það var mjög erfitt að velja kol, meðan á stríðinu stóð Það kom fyrir, að kolin voru tekin aftur úr skipunum, eftir að búið var að ferma þau.

Jeg held, að jeg geti ekki litið öðruvísi á en að landsstjórnin eigi enga sök á því, þó að skaði hafi orðið á kolasölunni Það mátti altaf gera ráð fyrir þessu. Og það var heimtað, að landið væri byrgt upp að kolum. Það var ekki gert ráð fyrir, að skip væri eitt ár á leiðinni frá Englandi. Jeg tel betra að sleppa tollinum alveg heldur en að færa hann niður í 5 kr.