14.07.1919
Neðri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

19. mál, vörutollur

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg get fallist á það með háttv. þm. Dala. (B. J.), að verðtollur mundi vera að ýmsu leyti rjettlátari. En jeg get ekki gengið inn á það, að eftir því, sem dýrtíðin eykst, eigi tollurinn að hækka.

Ef nauðsyn bæri til þess, þá yrði að færa hann yfir á aðra skattstofna en lífsnauðsynjar.

En út í þau atriði skal jeg ekki fara frekar.

En það er eitt, sem mig furðar á. Og það er, hversu háttv. þm. Dala. (B. J.) virðist hafa mist traust sitt á hæstv. stjórn, þar sem hann svo mjög vantreystir henni til að undirbúa skattamálin. Það hefir breyst í honum hljóðið eigi alllítið, því að hingað til hefir hann álitið, að óhætt væri að trúa henni fyrir öllu.

En jeg hefi þá trú, að óhætt sje að treysta henni til þess að undirbúa þetta mál sem fyrst, og jeg lít svo á, að full afsökun sje fyrir því, að það hefir ekki verið gert enn. En það álít jeg rangt, að taka fyrir einn lið og breyta honum, þegar breytingin öll er fyrir dyrum. Þar þarf alt að vera samfara, svo að ekki verði brotið það kerfi, sem farið verður eftir í heildinni.

En þess vildi jeg geta, eins og jeg hefi áður tekið fram, að jeg tel víst, að innheimta á verðtolli yrði lítt möguleg, eins og nú standa sakir. Þar mundi áreiðanlega verða hætt við undanbrögðum, þar sem það skifti svo miklu, að koma vörunum úr einum flokki í annan.