30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2274 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

138. mál, Þingvellir

Einar Jónsson:

Jeg vona, að háttv. þm. skilji mig ekki svo, að jeg sje á móti þessu máli. Það er síður en svo. En jeg er á móti því, að það sje tekið fyrir nú þegar og látið ganga fyrir öðru, sem er þarfara. Hv. 2. þm. Arn. (E. A.) talaði um það, að jeg hefði komið á Þingvöll, en ekki getað orðið honum sammála í því, að vernda beri staðinn fyrir spillingu. Hann sagði enn fremur, að enn þann dag í dag væri deilt um það, hvar hið forna lögberg hefði staðið. Og þykir mjer það undarlegt, að þessi háttv. þm. (E. A.) skuli ekki vita betur, þar sem það er kunnugt, að hann er einn af fróðustu mönnum þessa lands. Við eigum ef til vill eftir að lifa það, að þetta verði rannsakað til hlítar af hinum fróðu mönnum, og gæti svo farið, að við þá rannsókn kæmi í ljós, að lögberg hefði staðið annaðhvort á Gjábakka eða á Kárastöðum. Væri það illa farið, því báðir þeir bæir eru fyrir utan það svæði, sem friða á.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) talaði um það í ræðu sinni, að þetta hefði lítinn kostnað í för með sjer. Jeg hugsa, að fáir sjeu honum sammála um það atriði. Eins og hv. þm. Borgf. (P. O.) tók fram, sýnir 2. liður till. það, að leggja á í eyði fjórar jarðir. Og má undarlegt heita, ef þær jarðir verða ekki virtar á eitthvað. Auk þess er meiningin, að valin skuli sjerstakur umsjónarmaður yfir staðnum. Eitthvað þarf að borga honum, ef lætur að líkindum.

Eins og jeg tók fram áðan, þá er jeg ekki mótfallinn því, að Þingvellir verði verndaðir fyrir skemdum, ef það er álitið mögulegt. Hins vegar álít jeg ekki heppilegt, að það sje kostað kapps um að gera það þegar í stað með ærnum tilkostnaði.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að þetta væri tímaspursmál. Og er það rjett. Einmitt þess vegna má láta það bíða nokkurn tíma, en þarf ekki endilega að gerast á næsta ári.

Annars lít jeg svo á í þessu sambandi. að þessi fornhelgi staður sje að vísu vel þess verður, að honum sje allur sómi sýndur, en hv. þing ætti ekki að ráðast í það, nema því að eins, að það teldi sig jafngilda því forna þingi, sem þar var háð. Það færi illa á því, að hv. þingmenn legðu kapp á þetta, ef þeir væru slíkir ættlerar hinna, að þar væri í engu saman að jafna. Þá væri jafngott, að þeir ljetu þessa frægu forfeður sína sofa í friði, en færu ekki að leggja út í kostnað þeim til lofs, með peningum, sem ekki eru til. Að endingu skal jeg taka það fram, að jeg tel þessa till. ótímabæra, eins og ástæður eru nú, og get því ekki greitt henni atkvæði mitt.