17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2289 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

161. mál, leiðbeiningar við Íslendinga, sem flytjast heim úr öðrum löndum

Flm. (Bjarni Jónsson):

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði, að till. væri ónýt, af því að hjer þyrfti sjerstaka skrifstofu. Hygg jeg, að hann hafi ekki lesið till. Þar er skorað á stjórnina að láta eina af sínum skrifstofum hafa þetta starf með höndum. En að skrifstofan geti annað þessu, hygg jeg ekki vafasamt. Fyrir fám árum vildi þessi skrifstofa ekki láta af hendi forstöðu landsverslunarinnar. En síðan hún slepti henni hafa 3 menn haft þessa forstöðu á hendi, og gekk í brösum að fá nógu hæfa. Er því einkennilegt, ef þessi sama skrifstofa, sem ekki munaði um eina litla landsverslun, getur ekki annað þessu starfi.

Hitt er gott, að þeir, sem vilja flytjast hingað til lands, viti, hvert þeir eiga að snúa sjer, og að menn sje fyrir, er vísa þeim á staði til að búa á.

En þar sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) kom með þá aths., að þetta heyrði ekki undir hans embætti, þá lítur það nógu vel út á pappírnum. En ekki hjelt jeg að hann, þótt sterkur væri, fyndi ekki til þess, sem hann ber í vasanum.