17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (2593)

161. mál, leiðbeiningar við Íslendinga, sem flytjast heim úr öðrum löndum

Benedikt Sveinsson:

Jafnvel þótt fje sje veitt þessu fjelagi, þá er kunnugt, að það hefir mörg önnur störf með höndum, t. d. að senda íslenskan mann til Vesturheims til fyrirlestrahalds. Mun það fje, sem fjelaginu er veitt, jetast upp til þessa.

Er þess vegna engu á glæ kastað, þótt einni stjórnarskrifstofu sje falið að gefa mönnum, er hingað flytjast, eða hingað vilja flytjast, upplýsingar og bendingar, sem þeir þurfa og unt er að veita.

Það er ekki nema gott, að þessir menn geti leitað til „prívat“-fjelags um leiðbeiningar, en þó er enn betra, að stjórnarráðið leiðbeini mönnum. Einkum þar sem jeg geri ráð fyrir, að sumir muni leita til stjórnarinnar um jarðnæði. Á þá stjórnin hægra um vik að gefa leiðbeiningar, er að gagni megi koma, þar sem hún ræður enn yfir allmiklum jarðeignum og getur betur orðið að liði en valdalaust fjelag.

Sje jeg því ekki, að till. þessi fari neitt í bág við þessa fjelagsstofnun, heldur sje hún einmitt spor í sömu átt og geti stutt tilgang fjelagsins.