09.09.1919
Neðri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (2622)

143. mál, fræðslumál

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg býst við, að mjer verði ljett verk að mæla með till. á þgskj. 652. Er jeg reyndar ekki undir það búinn og ekki kunnugur þessum málum sem skyldi. En jeg vænti aðstoðar hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), ef til kemur, því að hann er kunnugri því, er í I. lið greinir, en jeg. Ástæður mentamálanefndar til að bera fram þessa till eru meðal annars þær, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) skrifaði nefndinni brjef, dags. 29. júlí þ. á., og í því brjefi óskaði hann eftir viðtali við nefndina um fræðslumál. Nefndin átti síðan tal við hæstv. forsætisráðherra, og ljet hann þá í ljós, að nauðsynlegt væri að athuga öll fræðslumál í einu lagi, og þá helst að skipuð yrði nefnd milli þinga. Nefndin var á því, að athuga þyrfti öll fræðslumálin, en hún sá ekki ástæðu til að skipa milliþinganefnd í málið, taldi nægilegt að fela stjórninni það, og í því skyni er þessi till. fram komin.

Till. greinist í þrjá aðalliði. Í I. lið eru taldir lægri skólarnir, barna- og unglingaskólar, gagnfræðaskólar og alþýðu- og kennaraskólar. Um I. lið get jeg verið fáorður. Launanefndin hefir haft það mál til meðferðar og komist að þeirri niðurstöðu, að endurskoða þyrfti alla löggjöf og fyrirkomulag þessum skólum viðvíkjandi. Hún hefir fært rök fyrir sínu máli í nál sínu á þgskj. 581, og get jeg vísað til þess. Sama nefnd hefir aðallega fjallað um launamálið, og vil jeg ekki blanda því í þessar umr. Þá er einnig minst á það í nál., að fullkomna þyrfti kennaraskólann, og þarf jeg ekki að eyða orðum að því; jeg ætla að eins að benda á, að mentamálanefndin talar um endurskoðun þessa skóla í till. í 1. undirlið (I.). Það er einkennilegt, að þessar tvær nefndir hafa starfað óháðar, en komist þó að sömu niðurstöðu. Í 2. undirlið (II.) eru taldir aðrir skólar, alþýðuskólar. Það er skorað á stjórnina að athuga, hvort heppilegt væri að stofna slíka skóla í einum eða fleirum fjórðungum, á landsjóðskostnað að einhverju leyti eða öllu. Það er til einn slíkur landsskóli, þar sem er Eiðaskólinn, og mætti þó eflaust telja fleiri í sama flokki. Jeg tel t. d. skólann á Akureyri alþýðuskóla þó hann sje kallaður gagnfræðaskóli, en nafnið skiftir minstu. Þá er líkur skóli í Hafnarfirði, en hann er að eins styrktur af opinberu fje, en ekki algerlega haldið uppi af því. Það eru ýmsir fleiri alþýðuskólar, og man jeg ekki nöfn á þeim öllum, en þó má geta skólans á Hvítárbakka, unglingaskólans á Núpi og á Hvammstanga. Þessir skólar eru styrktir af landsfje. En ekkert landseftirlit er með þessum skólum. Á sýslufundi Árnesinga hefir nýlega verið samþykt till. í þá átt, að hrinda af stað lýðskóla á Suðurlandsundirlendinu, og hefir sú hugmynd lengi verið í hugum manna. Þrátt fyrir þessa og fleiri skóla verður að reyna að koma samstæðu kerfi á skipulag alþýðuskóla. Kensla og reglugerðir eru mismunandi, og sumum er algerlega haldið uppi af landsins fje, en sumir styrktir meira eða minna.

Virtist nefndinni vera nægileg ástæða til að taka þessa grein kenslumálanna upp til rækilegrar athugunar og vita, hvort eigi væri rjett, að löggjafarvald og landsstjórn sæju um alþýðuskólana yfirleitt. Nefndin getur að sjálfsögðu á þessu stigi málsins ekki sagt um, að hverju hún mundi hallast, er málið væri rannsakað til fullnustu alt í heild sinni. Jeg gleymdi að minnast á búnaðarskólana og kvennaskólana. Um kvennaskólana get jeg þess, að frá mínu sjónarmiði er það mikið efamál, hvort halda skuli uppi sjerstökum skólum fyrir konur í þeim greinum, sem karlar læra jafnt sem konur. Jeg skýt því fram, hvort eigi muni rjettara að hafa samkenslu í þessum greinum; ódýrara mun það reynast, bæði húsnæði, kensluáhöld, ljós, eldiviður o. fl., auk þess sem það mun oftast reynast haganlegra að því er kenslukraftana snertir. Aftur á móti þurfa konur að fá sjerkenslu í nokkrum einstökum greinum, svo sem hús- og bústjórn, hannyrðum o. fl., ef rækt skal leggja við þær greinar. En slíkt má vel lánast, þótt samskóli sje að öðru.

Þá kemur 3. undirliðurinn, og er hann bein afleiðing af því, sem áður er komið. Hann fer fram á að skorað verði á stjórnina að undirbúa lagasetning um þau efni, sem í I., 1. og 2. lið segir, svo fljótt, sem því verður við komið. Það er auðvitað ekki tilætlun nefndarinnar, að þar sje að neinu hrapað, enda bendir orðalag 3. liðsins á það. Jeg býst við, að rannsókn á öllu þessu máli og frumvarpagerð um það verði alllangsótt og torveld. En tilætlunin er, að stjórnin með hjálp skynsamra manna og fróðra um kenslumál ráðist í þetta og framkvæmi það svo fljótt sem unt er.

Þá kem jeg að II. lið till., og lýtur hann allur að hinum almenna mentaskóla, sem svo er nefndur.

Árið 1904 var lagður grundvöllur að gerbreyting hins gamla latínuskóla með bráðabirgðareglugerð fyrir hinn almenna mentaskóla, eða rjettara sagt gagnfræðadeild hans. Höfuðgreinar skólans voru latína og gríska. Latneskum stíl og grísku var með öllu bygt út úr skólanum, og latínu úr gagnfræðadeild hans líka. Hætt var og að sjálfsögðu að gera latínu að inntökuskilyrði í skólann. Jeg skal ekki fara út í, hvort þetta hefir verið til bóta eða ekki. En apað mun það hafa verið eftir svipuðum breytingum sem þá höfðu nýlega gerst og voru að gerast í nágrannalöndunum Nú mun vera að verða töluverð skoðanabreyting hjá mentamönnum nágrannaþjóða vorra, og margir vera að hverfa að því, að rjett sje að kippa latínuskólunum í líkt horf og áður var.

Í stað skólareglugerðarinnar frá 1877 eða 1878 kom þessi reglugerð frá 9. sept. 1904, þar sem svo segir í 2. gr., að gagnfræðadeildin skuli veita nemendum sínum „hafilega afmarkaða almenna mentun“, og jeg geri ráð fyrir, að það hafi ekki brugðist í framkvæmdinni, að þessi mentun hafi verið „hæfilega afmörkuð“, því að gagnfræðadeildin er í raun rjettri ekki annað en framhald af barnaskóla; það eru flest 12 ára unglingar, sem í hana fara, margir komnir beint úr efri bekkjum barnaskóla.

Það snjallræði var þá og tekið upp, að afnema daglegar einkunnir. En mjög hefir verið deilt um, hve heppileg sú ráðstöfun hafi verið. Í minni skólatíð veit jeg það, að daglegar einkunnir þóttu auka kapp nemenda. Að vísu voru þeir kallaðir „karaktersjúkir“ af sumum, sem ljetu sjer ant um að fá góða vitnisburði. Slíkt tel jeg enga sneypu, heldur þvert á móti, það sýndi áhuga á því, að komast áfram á braut sinni, og vott um, að þeir vildu ekki vera eftirbátar annara. Þá var og breytt tölugildi einkunna. Í stað þess, sem áður voru gefnar einkunnirnar 6, 52/3, 51/3, 5 o. s. frv., var nú ákveðið, að einkunnirnar skyldu vera í heilum tölum, 8, 7 o. s. frv. niður í 0. Þessi eldri einkunnagjöf, sem kend er við Örsted, er komin frá Danmörku hingað. En er henni var breytt í Danmörku, þótti sjálfsagt að breyta henni hjer. Hefi jeg aldrei heyrt neinn geta gert grein fyrir því, hví þessi breyting var gerð eða hverjir væru kostir hennar. Við burtfararprófin var og hætt að gefa aðaleinkunn, sem áður hafði tíðkast, enda segir í reglugerðinni, að aðaleinkunn sje afnumin. Þessi breyting kemst á smátt og smátt, fyrst í neðsta bekk gagnfræðadeildar haustið 1904, síðan næsta ár í tveim neðstu bekkjunum, og var fullkomlega komin á á 6 árum. Bráðabirgðareglugerð fyrir lærdómsdeildina var gefin út 13. mars 1908, og prófreglugerð fyrir hana 20. maí 1910. Fyrsta stúdentsprófið eftir hinni nýju reglugerð var haldið vorið 1910. Gengur sú saga, að rektor skólans, Steingrímur skáld Thorsteinsson, hafi látið svo um mælt við skólauppsögnina, að í það sinn útskrifuðust margir góðir efnismenn, en vitanlega hefðu þeir ekki fengið jafngóða mentun sem stúdentar áður.

Eins og jeg gat um áður, var grísku með öllu bygt út úr skólanum með hinni nýju reglugerð, en latínu haldið þar að nafni til, í lærdómsdeild svonefndri. Þó var felt niður latneskur stíll og skriflegar þýðingar úr latínu á íslensku. Í munnlegri latínu var veitt dálítil kensla í hinni svokölluðu lærdómsdeild. Í henni átti að lesa vandlega 170 bls. í óbundnu máli, og 2000 vers í bundnu máli, og auk þess hraðlesa lítið eitt í latneskum ritum. Til stúdentsprófs áttu þeir að hafa einungis um 70 bls. í óbundnu máli og 1000 vers í skáldritum latneskum.

Þeir, sem gengið hafa í latínuskólann áður en breytingin varð, munu geta gert sjer í hugarlund, að þessi latínukensla getur ekki orðið annað en kák, enda verða þeir, sem við kenslu fást í háskólanum, þess varir, að flestir, sem þangað koma, eru lítt að sjer í latínu, þótt greindir sjeu og góðir námsmenn.

Um þetta væri lítt að fárast, ef eitthvað jafngott hefði komið í stað latínunnar og grískunnar. í minni tíð voru það tvær námsgreinir, sem teljast máttu þungamiðja alls námsins í skólanum: latína og gríska annars vegar og stærðfræði hins vegar. Það eru þær greinir, sem að flestra dómi efla mest þroska manna. Stærðfræðin skerpir skilninginn, og skapar rökrjetta hugsun; geta allir óvitlausir menn lært hana (og jafnvel hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) líka, þótt hann brosi að), en játað skal það, að sumir eru hneigðari fyrir hana en aðrir, og þeim sýnna um nám hennar. Aftur eru aðrir hneigðir fyrir málanám, og fyrir þá voru gömlu málin prófsteinninn, og þau gáfu seglfestuna. Jeg sje ekki, að neitt hafi komið í staðinn fyrir þau. Í stærðfræði er kent líkt og áður, að eins bætt við ofurlitlu í þríhyrningsfræði. En svo var aftur við fyrri hluta prófið bæði skrifleg og munnleg stærðfræði, en nú er hún að eins munnleg við burtfararpróf, og prófið að því leyti gert ljettara en það var; því að áður kom stærðfræðin mörgum á kaldan klaka, þeim er eigi stunduðu hana vel.

Þýska og franska er síst meir kendar en áður, nema minna sje, og eigi sje jeg, að öllu meira sje kent í náttúrufræði nú en áður. Það er ein námsgrein, sem kensla hefir mjög verið aukin í, enskan; en þótt það sje mál af mörgum talað og auðugt að bókmentum, þá er jeg í engum vafa um, að hún getur ekki komið í staðinn fyrir latínu og grísku sem þroskameðal fyrir nemendur; til þess er hún ekki fallin. Vjer verðum að gæta þess, að hlutverk mentaskólans er ekki að ala menn upp til að verða vörubjóðar eða skrifstofuþjónar, heldur á hann að búa þá undir frekara nám og gera þá færa um að leggja stund á vísindanám. Hitt er hlutverk verslunarskóla, að menta kaupsýslumennina.

Enn er ótalið eitt atriði, sem gerir það að verkum, að trygging í prófum er margfalt minni nú en fyr. Jeg mintist áður á einkunnagjafir í okkar tíð, sem miðaldra eru og þar yfir, en þó ekki til fulls. Þá var einkunnagjöfum háttað eins og er í háskólanum nú, að lágar einkunnir gátu beinlínis dregið frá aðaleinkunninni. Þannig dró 1 frá 23 stig, og verkaði það, að erfitt var að ná prófi, þegar svo fór; en nú er hægt að hoppa í gegnum prófin með 1 í fleiri námsgreinum en einni, því hann dregur ekki frá, heldur hækkar hann aðaleinkunn um 1. Meira að segja, þótt einhver fái 0 í einni námsgrein, getur hann náð prófi með sæmilegum vitnisburði; hann þarf að fá tvö 0 til þess að falla við próf. Enskan er nú þungamiðjugrein í skólanum, og þó getur nemandi náð prófi með 0 í henni, munnlegri eða skriflegri. Í einu blaði var reiknað út, hvað lítið þyrfti til að komast gegnum mentaskólann, og fanst mörgum það undrum sæta. Þeir, sem að skólanum standa, hafa líka fundið þetta og að þörf væri að herða á kröfunum. Vottur um þetta er brjef frá rektor mentaskólans 2. júlí 1919, sem legið hefir fyrir nefndinni. Í því talar hann um þörfina á tvískiftingu lærdómsdeildar skólans í stærðfræðisdeild og máladeild, enda munu flestir honum sammála um hana. Verkfræðingafjelagið hefir líka látið í ljós í brjefi 4. apríl þ. á., að óhjákvæmilegt muni að skifta skólanum þannig, því að stúdentar frá mentaskólanum geti ekki, eins og hann er nú, fengið inngöngu í verkfræðingaskóla, heldur þurfi þeir að eyða heilu ári í undirbúning til þess að vera teknir þangað. Þetta er bæði dýrt og erfitt, og í minni tíð hurfu ýmsir frá því ráði, sem þó höfðu ætlað sjer að stunda verkfræðinám og voru byrjaðir á undirbúningi undir það.

Tveir menn hjer í bæ, þeir dr. Ólafur Daníelsson og Þorkell Þorkelsson kennari, sendu stjórninni erindi, er miðaði að því að bæta úr þessu, þar sem þeir sóttu um styrk til að koma upp skóla, er rækti það starf, að búa menn undir verkfræðinám við æðri skóla. Erindi þetta var sent til mentaskólans til umsagnar; lagði rektor skólans það til, að í stað þess að stofna sjerstakan skóla til þessarar kenslu, skyldi lærdómsdeildinni skift í tvær deildir, þar sem önnur kendi stærðfræði og náttúrufræði, líkt og ráð var fyrir gert í áðurnefndu erindi; enda mun það og heppilegra; það mundi reynast ódýrara og auðveldara að afla góðra kenslukrafta í öllum greinum, og þar á meðal mundi verða hægt að hagnýta sjer hina ágætu hæfileika þeirra tveggja manna, sem hreyfingu komu á málið.

Fyrsti undirliður í þessum kafla tillögunnar er, að tvískifta skuli þegar í haust þremur efstu bekkjum hins almenna mentaskóla. Þetta má ekki misskilja. Tilætlunin getur ekki verið, að tvískifta skuli þegar í haust öllum bekkjum lærdómsdeildarinnar, heldur að eins 1. bekk hennar, og svo koll af kolli, þannig að tvískiftingin verði komin á til fulls eftir þrjú ár. Þeir, sem nú eru komnir upp úr 4. bekk, halda allir áfram náminu á sama hátt sem nú tíðkast.

Eins og flestum mun kunnugt, er bekkjum í lærdómsdeildinni, fleiri eða færri, tvískift, sökum þess, hve aðsókn að þeim er mikil, þótt hið sama sje kent í báðum bekkjadeildunum. Þetta útheimtir aukna kenslukrafta, aukið húsnæði, ljós og hita. Mundi því ekki verða mjög mikill aukakostnaður við tvískiftinguna, og líklega mundi ekki þurfa að auka kenslukraftana meira en svaraði 1½ eða 2 kennurum. Tvískiftingin er heppileg að fleiru leyti en á hefir verið minst; hún er og heppileg að því leyti, að þá fær hver og einn betur að njóta einstaklingseðlis síns en ella. En í neðri bekkjunum mundu nemendur halda áfram að fá þessa „hægilega afmörkuðu almennu mentun“, sem reglugerðin talar um, meðan núverandi skipulag stendur.

Ef skift er, gætu þeir, sem sjerstaka köllun finna hjá sjer til stærðfræði, eðlisfræði, stjörnufræði og ýmissa greina náttúrufræðinnar, farið þá leið.

Nú er það vafalaust að stærðfræðinámið eykur þroska manna og veitir þeim aðallega seglfestu. Þessir menn fá því sitt, sem þá leiðina fara. Þá eru hinir, sem hneigðir eru fyrir mál og sögu; þeir fara þá leiðina og fá að njóta sín þar. Það virðist því svo, sem einstaklingseðlið muni fá betur að njóta sín með þessu skipulagi heldur en því, sem nú er, eða því, sem var í gamla daga, og það eins þótt neðri deild skólans væri færð í samt lag og áður var.

Þá er 2. undirliður í II. Það er mjög varlega orðað, þar sem stjórninni er að eins falið að rannsaka, hvort ekki muni heppilegast, að kenslugreinir í þremur neðstu bekkjum mentaskólans verði hinar sömu og þær voru áður en núverandi skipulag komst á skóla þennan o. s. frv.

Ef sú yrði niðurstaðan, að það yrði talið heppilegt, þá yrði auðvitað að breyta inntökuskilyrðunum. Það væri sjálfsögð afleiðing.

Enn fremur á að rannsaka það, hvort ástæða sje til að halda einkunnum þeim, sem nú eru. Skal jeg benda á það, að skólanefnd sú, sem nú situr á rökstólum í Danmörku, hefir að sögn, lagt það til að taka upp aftur gömlu einkunnirnar. Þar var komin fram fyrirspurn um það, hvers vegna hætt hafi verið við þær, en enginn var svo vitur, að hann gæti svarað því, sennilega af því, að það hefir verið gert ástæðulausu.

Þá er 3. undirliður í II. Um hann er hið sama að segja og 3. undirlið í I. Þar er að eins lagt til, að breytt verði því, sem nauðsynlegt er samkvæmt niðurstöðu rannsóknanna.

Ef rannsóknin leiðir það í ljós, að engu þurfi að breyta, þá er ekki um neina breytingu að ræða, en ef svo fer, sem jeg vænti, að breyting þyki nauðsynleg, þá er líka sjálfsagt að framkvæma hana. Þá er loks III. aðalliður till. Um hann þarf jeg ekki að fara mörgum orðum. Það væri mjög ósanngjarnt að krefjast þess, að kenslumálaráðherrann einn saman ætti að taka að sjer þetta starf, að leysa úr þessum spurningum, enda er það ekki á eins manns færi, því að til þess þarf mikla sjerstaka þekkingu og kunnugleika.

Kennslumálaráðherrann hefir líka ýmsu öðru að gegna, þar sem hann um leið hefir á hendi dómsmál, kirkjumál o. fl.

Hann verður því að fá sjer aðstoðarmenn, fleiri eða færri, til þessa starfs, og ekki verður við því búist, að þeir vinni fyrir ekkert. Þess vegna er það sjálfsagt að leyfa stjórninni að greiða sanngjarna borgun fyrir þau störf, sem unnin verða í þessu augnamiði.

Auk þess hlýtur tvískifting lærdómsdeildarinnar að hafa nokkurn útgjaldaauka í för með sjer, eins og fyr segir, og er ætlast til, að stjórnin greiði það fje úr landssjóði.

Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um till. þessa, en vona, að henni verði vel tekið af hv. deild.