17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (2678)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Þorleifur Jónsson:

Jeg ætla að segja að eins örfá orð, til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli.

Jeg fylgdi till. í gær meðfram af því, að Sogið er talið svo dýrmætt til virkjunar, að jeg álít nauðsynlegt, að ríkið hafi umráðarjett á því. Jeg verð að telja það sennilegra, sem haldið hefir verið fram, að Reykjavík mundi hagkvæmara að geta fengið afl úr Soginu til ljósa, hitunar og smáiðju, heldur en virkja til þess Elliðaárnar. Og það mundi líka verða hagkvæmt að nota aflið þaðan fyrir þorpin hjer við Faxaflóa og meginið af Suðurlandsundirlendinu. Með tilliti til þessa gat jeg fallist á till., sem var hjer til umr. í gær. En jeg gat líka fallist á það, að þetta tækifæri væri notað til þess að skera úr eignarrjettarþrætunni, því að þótt jeg hallist fremur að þeirri skoðun, að landeigandinn hafi í raun og veru öll ráð yfir vatnsorkunni, virtist mjer óþarfi að vera svo harðsnúinn, að neita andstæðingunum um, að dómstólarnir fengju að skera úr þrætunni. Jeg áleit engan skaða skeðan með því að leyfa það. Því var haldið fram í gær, að meiri hluti nefndarinnar vildi gefa í skyn, að landið væri hinn rjetti eigandi vatnsorkunnar. En þetta kom hvergi fram hjá háttv. frsm. (G. Sv.). og ekki heldur var hægt að draga þá ályktun af því, sem fram kom hjá meiri hluta nefndarinnar, að öðru leyti en því, að menn vissu um skoðun háttv. þm. Dala. (B. J.) á þessu atriði. Við vitum, að í þessu efni er staðhæfing móti staðhæfingu, og því eðlilegt, að dómstólarnir væru látnir skera úr ágreiningsefninu: ella verður þingið sjálft að gera það. Jeg álít það ekki saknæmt, þó að málinu væri skotið til dómstólanna því að sá, sem er sannfærður um rjett sinn, er venjulega ósmeykur við að skjóta máli sínu undir úrskurð dómstólanna. Og þó að jeg hallist að því, að einstaklingarnir hafi allan rjett yfir vatninu, hver á sinni jörðu, hafi í raun og veru eignarrjett á því, þá er jeg samt óhræddur við að skjóta málinu til dómstólanna. En deildin vildi nú ekki fara þessa leið, og get jeg látið mjer það vel lynda.

En þar sem jeg hefi þá skoðun, að landið eigi að taka Sogsfossana til sinna umráða, og jeg hefi þá von, að landið geti eitthvað gert til þess að virkja þá, þá mun jeg fylgja þessari till., sem hjer liggur fyrir. Hún er í raun og veru sama efnis og 2. liður till., sem feld var í gær. En það lítur út fyrir, að ýmsir sjeu nú annars sinnis, því að nú hefir risið upp hver á fætur öðrum og lýst yfir fylgi sínu við þessa till. En jeg býst við, að svo verði álitið, að ef till. verður samþ., sje eignarrjettur einstaklinganna á vatnsorkunni þar með ákveðinn. Eða svo munu þeir að minsta kosti líta á málið, sem till. fylgja. Og jeg hefi ekkert út á það að setja, úr því að löggjafarvaldið sjálft vill nú þegar ákveða þetta. Nefndin vildi synda milli skers og báru í þessu efni; hún vildi ekki vekja upp deilu um þetta aftur, og þess vegna reyndi hún að sneiða hjá að flytja till., sem kæmi inn á þetta atriði. Hún áleit mest vert að reyna að koma fram lögum um sjerleyfi og hjelt, að það yrði hæga t að koma slíkum lögum nú í gegnum þingið, ef ekki væri sett inn í þau ákvæði um eignarrjett á vatni.

Jeg hefi þá gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls.