20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Pjetur Jónsson:

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) svaraði athugasemdum mínum og hjelt því fram, að svo framarlega sem till. þessi yrði ekki samþykt, þá væri fyrir það girt, að Reykjavík gæti hagnýtt orku úr Soginu, og yrði að snúa sjer að því að virkja Elliðaárnar. Jeg lít svo á, að rangt sje að setja þessa till. í þetta samband. Ef Reykjavík vill taka Sogið í sínar hendur, þá verður það að vera ljóst, hvort nægilegt peningamagn fáist, hvort fyrirtækið geti borgað sig, og ýmislegur annar undirbúningur að vera gerður. Að vísu verður Sogið ekki tekið eignarnámi ef till. verður feld, nema ef bæjarstjórn óskar þess, en þá getur landsstjórnin líka gert það samkvæmt fossalögum. Ef landið og bærinn ætla að vera saman um að virkja Sogið, þá verður auðvitað að koma til þingsins kasta, hvort það vill leggja fje í þetta fyrirtæki. En slíkt ætti þá að ganga á undan þessari tillögu.

Jeg sje engan skaða að biðinni. Jeg held það heilaspuna, að vatnsafl hækki þarna í verði; jeg ímynda mjer, að það lækki heldur en hitt, eftir því sem liggur í loftinu.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) talaði um eignarnámið eins og aflið væri tekið í hestöflum, og mætti þá tempra hestaflatöluna eftir þörfum. Jeg er hræddur um, að hann sje ekki vel heima í því, hvað átt er við með eignarnámi. Það eru ekki ákveðin hestöfl, sem taka á, heldur fossa og strengi, lönd og stöðuvötn, ef fylgja á till. gersamlega. Máli mínu til stuðnings skal jeg lesa upp till, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á landsstjórnina að gera nú þegar ráðstafanir til þess, að landið nái fullum umráðum og notarjetti á allri vatnsorku í Soginu, alt frá upptökum þess og þar til er það fellur í Hvítá, ásamt nauðsynlegum rjettindum á landi til hagnýtingar vatnsorkunni“.

En fullkominn umráðarjettur er ekki nema vatnsmiðlun sje tekin með.