17.07.1919
Neðri deild: 9. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

33. mál, tollalög

Björn R. Stefánsson:

Eftir því, sem ætla mætti, ef bygt væri á greinargerð stjórnarinnar, þá fer brtt okkar mín og háttv. þm. Borgf. (P. O). fram á tekjurýrnun, sem næmi alt að 97 þús. kr. Jeg get viðurkent að það er ábyrgðarhluti, nú á þessum tímum, að rýra tekjur landssjóðs. En þó eru óneitanlega takmörk á því, hvað langt má ganga í því að tolla einstakar vörutegundir, en auk þess býst jeg ekki við að tekjurýrnunin verði eins mikil og áætlað er.

Það sem aðallega hvatti mig til að bera fram þessa brtt., var óttinn við tollsvik. Tóbak er vara sem auðvelt er að smygla inn, og óspart er smyglað inn. Jeg hefi orðið var við tollsvik á tóbaki og það áður en tollurinn var orðin tiltakanlega hár. Hásetar, bæði á fiskiskipum og öðrum skipum, hafa oft með sjer poka og pinkla, úttroðna af ýmsum tegundum tóbaks. Þetta hefir átt sjer stað lengi um land alt og hlýtur að aukast, eftir því sem tollurin í hækkar. Ábatavonin verður meiri, freistingin meiri, tollsvikin meiri. Og það er einmitt þetta, sem vekur ótta minn á því, að tekjurnar hækki ekki að sama skapi og tollurinn. Og það er af þessari ástæðu, að jeg býst ekki við, að brtt. okkar hafi í för með sjer eins mikla tekjurýrnun og ætla má eftir greinargerð stjórnarinnar.

Hv. frsm. (E. Árna.) gat líka um sódavatn, öl og þess háttar, og þótti hækkunin mikil á svo verðlítilli vöru. En hún er ekki eins verðlítil og hann vildi halda fram. Lítrinn af sódavatni er hjer seldur á aðra krónu og þegar svo er, þá er auðsætt, að það er ekki svo verðlítið, að það — slík vara — ekki megi bera þetta gjald. Hann talaði einnig um verndartolla Jeg get fallist á, að margt geti verið til í því. Því gæti verið rjett að taka tillit til þessa og leggja skatt á innlendan gosdrykkjatilbúning, þegar aðflutningsgjaldið er orðið þetta hátt. Á leiðinni er líka frv. um skatt á innlendan brjóstsykur. Jeg veit ekki, hve miklu hann næmi, því engar skýrslur hefi jeg enn athugað um eyðslu á honum. En hún er mikil; það eitt er vís. Hann er síst þarfari en tóbakið og mætti að öllu leyti eins vel bera álagningu. Að vísu er altaf leiðinlegt að skatta innlendan iðnað, en þó er það að eins hliðstætt því, sem gert er við tóbakið, og væri því ekkert nýmæli í íslenskri löggjöf.