07.07.1919
Neðri deild: 3. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2885)

21. mál, landsbókasafn og landsskjalasafn

Forsætisráðherra (J. M.):

Það eru að eins örfá orð út af ræðu hv. 2. þm. Árn. (E. A.). Í fyrsta lagi er það lítil ástæða gegn frv., þótt húsrúmið verði of lítið fyrir söfnin, því að það hefir verið gert ráð fyrir, að bæta mætti við húsið. En það mun verða langt þangað til, því áður mun verða rýmt burtu náttúrugripasafninu og þjóðmenjasafninu og þau sett saman. Það er jafnvel ekki ósennilegt, að ekki liði á löngu, að krafa komi fram um sjerstakt hús handa þeim, og ef svo á að koma sjerstakt hús handa skjalasafninu, þá verður þetta landinu ofviða.

Það er ekki rjett, að frv. fjölgi embættum. Embættum hefir þegar fjölgað mikið við þessar stofnanir á síðustu árum; er það gott í sjálfu sjer, en það kostar mikið.