21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

33. mál, tollalög

Magnús Torfason:

Fjárhagsnefnd hefir athugað mál þetta, þó ekki hafi því enn verið vísað til hennar og sjerstaklega hefir vaknað sú spurning við athugun hennar á 2. málsgr. 2. liðs. hvort ekki væri rjett að taka einnig toll af þessum vínanda, þar sem hann, þó hann eigi að vera óhæfur til drykkjar, er talsvert drukkinn, og því ekki eingöngu notaður í þeim tilgangi, sem undantekningin er bygð á.

Vil jeg spyrja hæstv. ráðherra (S. E.), hvað hann muni segja um þessa breytingu, og eins hitt, hvort hann álíti, að greinin megi vera svo orðuð, sem hún nú er, því tvírætt geti verið, hvort undir hana fjelli vínandi, sem innfluttur væri til iðnaðar, en næði þó ekki 16° styrkleika.

Jeg veit ekki, hvort slíkur vínandi er notaður í því skyni, en vænti upplýsinga hæstv. ráðherra (S. E.) um þessi atriði.