24.07.1919
Neðri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (2952)

83. mál, hvíldartími háseta

Forsætisráðherra (J. M.):

Þetta mál gefur tilefni til ýmissa athugasemda, sjerstaklega þó mótmæli þau, sem fram hafa komið. En jeg er ekki undir það búinn að fara ítarlega út í það.

Að eins vildi jeg láta í ljós undrun mína yfir því, að svo hófleg tilmæli, sem hjer er um að ræða, skuli hafa getað sætt mótmælum, sjerstaklega þegar eins er ástatt í heiminum og nú, og við erum svo heppnir, að hafa losnað við alla baráttu um verkamannamálin. Jeg hefði getað hugsað mjer, að menn hefðu risið upp öndverðir, ef farið hefði verið fram á 16 kl.st. hvíld á sólarhring, eins og sumstaðar er krafist af sjómönnum nú á dögum.

Jeg hjelt líka, að hv. þm. Dala. (B. J.) hefði kynt sjer betur verkamannahreyfinguna en vera virðist af því, sem kom fram í ræðu hans. Hann virtist ekki skilja það, hversu hóflega er hjer farið, einmitt með því, að binda þessi ákvæði einmitt við botnvörpungana eina, því að það er auðvitað, að yfirleitt eiga ekki við um landbúnað og sjávarútveg (fiskveiðar) þær reglur að þessu leyti, sem annars eiga við um ýmsa reglubundna vinnu. En það er alt öðru máli að gegna með togarana, sem eru úti í sjó alt árið, en önnur skip, sem eru úti að eins nokkra mánuði á árinu.

En jeg tel það mjög óhyggilegt að deila mikið um mál þetta nú. Hitt væri rjettara, að vísa því til nefndar, í þeirri von, að hún athugi það vel og gaumgæfilega.

Þess ber að gæta, að þetta er að eins örlítill partur af stórmáli, sem vel gæti komið til að taka yrði fyrir, og þá má ske ekki í nógu næði, ef hjer er farið ógætilega og æsingum beitt.

Jeg vildi því óska, að umr. yrðu ekki öllu lengri, fyr en málið kemur frá nefnd aftur.