27.08.1919
Neðri deild: 47. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (2982)

53. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Stefán Stefánsson:

Þá hafa nú hv. þingdm. heyrt og sjeð, hvernig hv. allsherjarnefnd lítur á afstöðu Ólafsfirðinga og beiðni þeirra um sjerstakan lækni. Þetta er fyrsta og má ske eina beiðnin um stofnun nýs læknishjeraðs, sem á er ráðist og háttv. nefnd leggur til að neitað sje; og höfuðástæðan fyrir þessu er sú, að í umdæmi þessu sjeu ekki nema 600 manns. Við 1. umr. lýsti jeg afstöðu Ólafsfirðinga og erfiðleikunum við að ná í lækni, eins og nú hagar til. Líklega hefir mjer ekki tekist að gera þetta nógu ljóst fyrir hv. þingdm., því að ef svo hefði verið, þá skil jeg ekki í öðru en að hv. nefnd hefði brugðist öðruvísi við máli þessu en raun er á orðin; því að sje það á annað borð viðurkent, að dögum og jafnvel vikum saman sje ómögulegt að ná í lækni, þá vil jeg ekki efa, að hv. þingdm. finnist óhjákvæmilegt að bæta úr þessu, og það þótt hjer eigi ekki fleiri en 600 manns hlut að máli.

En í sambandi við fólkstöluna í Ólafsfirði vil jeg geta þess, að enginn vafi er á, að íbúar Stýflu, og jafnvel úr miklum hluta Austur-Fljóta, mundu að jafnaði leita læknis í Ólafsfirði, væri hann þar búsettur. Það er ekki nema klukkutímaferð milli Ólafsfjarðar og Stýflu, og vegur góður yfir Lágheiði, enda eru viðskifti mikil og samgöngur tíðar milli þessara sveita. Þegar þetta er tekið til greina, sem sjálfsagt er, þá hækkar fólkstalan að góðum mun, sem vitja mundi læknisins í Ólafsfirði. Þetta hlýtur að álítast sjálfsögð afleiðing af því, hve miklu hægra yrði að vitja læknis í Ólafsfirði en í Hofsós. Annars virðist mjer, að eigi megi fremur fara eftir fólkstölu en hjeraðsafstöðu, nema síður sje, þegar um myndun læknishjeraða er að ræða.

Þá hefir því verið haldið fram, að um fámenn hjeruð sæki læknar ógjarna, og því sje stofnun slíkra læknishjeraða tilgangslaus. En til þess er fyrst að svara, að þá kemur ekki til þess að launa lækninum, ef enginn fæst, og hins vegar ætlar launafrv. það, sem nú er á ferðinni, læknum í fálmennum hjeruðum hærri laun en í fjölmennum, svo að líkur verða meiri nú en áður, að læknar fáist í þau.

Þá er það mjög verulegt atriði í þessu máli, að sennilega 3/5–4/5 af íbúum hins fyrirhugaða læknishjeraðs eru í kauptúninu, þar sem læknirinn mundi að sjálfsögðu verða búsettur. En það er staðreynd, að læknir getur búist við margfaldari „praxis“ í þjettbýli hjá sama fólksfjölda dreifðum um víðlent hjerað. Sem dæmi upp á þetta get jeg skýrt frá því, að læknir einn á Norðurlandi hefir skýrt mjer frá því, að fullan helming af innanhjeraðs-„praxis“ sinni hafi hann á heimilinu, þar sem hann leigir; en þar er venjulega um 40–50 manns, því að þar er rekinn stórbúskapur til lands og sjávar; eru þó í læknishjeraðinu um 1000 manns, en það er víðlent. Læknir þessi er ungur og ötull og í miklu áliti, svo að hans er mikið leitað úr nálægum hjeruðum. Jeg hygg, að háttv. nefnd hafi ekki gert sjer þetta nægilega ljóst, nje heldur hitt, hve mikill hluti hjeraðsbúa eru saman kominn eða búsettur í kauptúninu Ólafsfjarðarhorni, eða sama sem á einu heimili.

Ef litið er á fólksfjölda 1910 í læknishjeruðum víðs vegar um landið, þá sjest, að í þrem þeirra eru íbúar færri en í Ólafsfirði, hvað þá ef tekið er tillit til þeirrar aðsóknar úr Stýflu og Austur-Fljótum, sem má telja alveg sjálfsagða, og er þó sumt af þessu sveitahjeruð. Þar hefir ekki verið hikað við að stofna læknishjerað, þótt „praxis“ væri fyrirsjáanlega miklu minni en hjer má telja vísa. Þetta er fyrsta beiðnin um læknishjerað, sem á að fella nú á þingi. Mjer þykir þetta undarleg framkoma. Það er líklega af því, að hv. nefnd hefir blöskrað, hvað margar beiðnir um stofnun nýrra læknishjeraða hafa borist þinginu að þessu sinni. Ef Ólafsfirðingar hefðu einir beðið um lækni, tel jeg lítinn vafa á, að þetta hjerað hefði hlotið mikinn meiri hl. atkv.; svo margt mælir með því.

Þótt eigi virðist blása byrlega fyrir málinu, eftir undirtektum hv. nefndar, þá er jeg þó enn eigi vonlaus um framgang þess; bæði tók hv. framsm. (E. J.) mjög vægt á því, og svo ber jeg það traust til annara hv. þingdm., að þeir muni ekki fallast á niðurstöðu hv. nefndar, að þeir leggist ekki á móti jafneðlilegri bón Ólafsfirðinga, sem þessi er, og brýnni nauðsyn þeirra. Jeg hefi minst á málið við landlækni, og kvaðst hann ekki mundu leggjast á móti því, ef kjör lækna yrðu bætt. Eftir því, sem frv. um laun embættismanna fór við atkvgr. hjer í deildinni, tel jeg, að landlæknir muni ekki lengur hafa nokkuð við málið að athuga. Mjer er það því torskilið, ef háttv. deild ætlar eigi að síður að leggja stein í götu fyrir málið, og trúi því ekki að óreyndu.

Jeg sje þá ekki, að það hafi nokkra þýðingu að fara að lýsa staðháttum frekara en jeg gerði við 1. umr., en vænti þess hins vegar, að hv. deild hafi athugað fylgiskjalið með frv., sem er undirritað af 149 alþingiskjósendum í Ólafsfirði, og þeir sjái, við hverja kosti Ólafsfirðingar verða að búa, að því er snertir þeirra heilbrigðismál. Má vera, að þeir fái við það enn gleggri mynd af ástandinu og þörfinni á lækni en mjer hefir tekist að gefa.