21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (3010)

75. mál, bifreiðaskattur

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi lýsa yfir því, að jeg hefi enga trú á uppeldismætti tollanna. Og jeg hefi enga trú á, að bifreiðaskattur fái hindrað fjölgun bifreiða. Enda get jeg ekki sagt um, hvort ástæða sje til að fjölga bifreiðum eða fækka. Það eitt er víst, að það er nálega ókleift að ná í slíkan vagn, þegar á þarf að halda, enda er það síst að furða, því að bifreiðar hafa hjer tvöfalt hlutverk að vinna. Þær eru notaðar sem innanbæjar flutningstæki og sem eimlestir utanbæjar, bæði til skemtunar og nauðsynja. Þess vegna þarf hlutfallslega fleiri bifreiðar hjer en erlendis, þar sem menn nota einnig sporvagna og eimlestir.

Það er rjett, sem hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) tók fram, að það er rangt að leggja skattinn á flutningatækin; miklu nær að taka hann af farseðlunum. En jeg hefi samt enga trú á, að skatturinn verði neitt uppeldismeðal, nema ef hann skyldi valda því, að fólk rápaði meira. Unga fólkið, sem þyrfti inn að Elliðaám áður en það háttaði, legðist þá ef til vill heldur fyrir heima. — Jeg geri líka ráð fyrir, að leggja mætti skatt á hesta og brennimerkja þá á hófunum, og jafnvel hrúta, ef menn kynnu að nota þá til flutninga, og mætti brennimerkja þá bæði á hornum og klaufum. (E. A.: En að brennimerkja menn?). Það væri verra.

Jeg hefi ekkert á móti, að hv. samgöngumálanefnd athugi málið til næstu umr. En jeg vil árjetta það, að jeg tel óþarft að eta smjörið við flotinu og vísa málinu frá fjárhagsnefnd til annarar nefndar.