23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (3019)

75. mál, bifreiðaskattur

Sigurður Sigurðsson:

Út af þessum ræðum um bifreiðaskattinn skal jeg geta þess, að jeg hefi átt tal við ekki svo fáa bifreiðaeigendur og bifreiðastjóra, og þeim til lofs get jeg borið það, að þeir eru ekki óánægðir með skattinn. Þeir segjast skilja, að hann sje lagður á í því skyni að fá fje í landssjóð, til þess að bæta vegina. Og þeir kunna vel að meta, hvers virði það er fyrir þá að hafa góða vegi til að aka á. Annars vegar má gera ráð fyrir, að skatturinn muni að einhverju hindra offjölgun bifreiða, og ekki hafa þeir heldur á móti því. Jeg þykist sjá, hverjir munu amast mest við skatti þessum; það eru þeir, sem ekki nenna að fara spönn frá rassi nema í bifreið; því að vitanlega lendir að lokum á þeim að borga skattinn.

Hv. frsm. (M. G.) sagði, að vegir hjer á Suðurlandi væru góðir, og því notuðu menn flutningabifreiðar til vöruflutninga. Þetta er ekki rjett. Menn hafa gripið til flutningabifreiðanna út úr hálfgerðum vandræðum. Annars vegar er svo komið, að það má heita frágangssök að koma með hesta hingað til bæjarins, sökum þrengsla og hagaskorts, og hins vegar eru vegirnir viða svo meinslæmir, suma hluta ársins, að ófærir mega teljast, jafnvel fyrir hestvagna.

En það er ekki eingöngu hjer sunnanlands, að mönnum hafi komið til hugar að nota bifreiðar til vöruflutninga. Þingeyingar hafa gert tilraun með það, og til tals hefir komið að flytja vörur úr Borgarnesi upp í sveitirnar í flutningabifreið, og svo mun víðar vera.

Vegirnir hjer fyrir austan eru, eins og jeg sagði, oft lítt færir. Er það ekki síst að kenna víxlspori því, sem stigið var í vegalöggjöfinni 1907, þegar viðhaldi veganna var varpað upp á sýslufjelögin. Með því var þyngri byrði lögð á hjeruðin en þau voru fær um að bera. Afleiðingin af þessu er sú, að nú verður að fara fram á stóra fúlgu úr landssjóði, til að laga vegi þessa, sem eru í þann veginn að verða alófærir.