28.07.1919
Efri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

33. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg þakka hv. fjárhagsnefnd. hvernig hún hefir tekið í frv. þetta, og sömuleiðis fyrir brtt. a. 1. og b. 3. — Virðist mjer ekkert athugavert þó tollurinn af sherry, portvíni og malaga sje hækkaður upp í 2 kr. af hverjum lítra. Að vísu eru þessar tegundir notaðar sem læknislyf, en að minni hyggju mun lítið um, að aðrir sjúklingar noti það en þeir sem hafa ráð á.

Hins vegar finst mjer alt of langt gengið að leggja 4 kr. toll á hvern lítra af vínanda, sem nota á til eldsneytis og iðnaðar. — Jeg játa það, að væri hægt að greina á milli þess vínanda, sem notaður er til eldsneytis, og hins, sem notaður er til drykkjar, mætti tolla þann síðarnefnda mjög hátt: en slíks er ekki kostur.

En að tolla vínanda, sem notaður er til eldsneytis eins og farið er fram á í brtt., nær ekki nokkurri átt. — Slíkur vínandi er mikið notaður til eldsneytis sjerstaklega af fátæku fólki, og myndi því sá tollur koma hart niður.

Verði brtt. hv. fjárhagsnefndar samþ., mun jeg koma fram með brtt. um lægri toll við 3. umr.

Jeg veit að það situr ekki á fjármálaráðherra að snúast á móti skattatill., sem ganga í þá átt, að bæta hag ríkissjóðs. — En þar sem hjer er að ræða um skatt, sem er svo hár, og kemur mest niður á fátæku fólki, mun jeg leitast við að fá hann lækkaðan.