28.07.1919
Efri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

33. mál, tollalög

Magnús Kristjánsson:

Háttv. frsm. (G. Ó.) var að reyna til að vera fyndinn, en tókst ekki, svo því þarf ekki að svara. Jeg stend við það, að það er óhæfilegt að leggja aðflutningsgjald á suðuspritt, sem vitanlega er eingöngu notað til eldsneytis og iðnaðar. Jeg veit ekki betur en að svo sje fyrirskipað að suðuspritt skuli gert óhæft til drykkjar. Það er beint hugsanarangt að halda því fram, að suðuspritt sje drukkið, ef þessu ákvæði er framfylgt. En þó maður nú fjellist á, að það hefði við eitthvað að styðjast að tolla suðuspritt, þá yrði maður að játa, að hjer er um einbert kák að ræða. Það lægi ætíð nær að leggja toll á hárvötn, en á því sjest enginn litur í frv. Hingað flyst mjög mikið af ,,Bayrum“, og hvað þau nú heita þessi hárvötn. Þau eru altaf óþörf og öllum er vitanlegt, að þau eru mikið notuð til drykkjar. Háttv. nefnd ætti að gera bragarbót, sem að gagni mætti koma, en ekki að vera að þessu fálmi. Suðuspritt er notað mikið af fátæklingum vegna þrengsla í húsum. Jeg stend við þessi orð mín, þó háttv. frsm. (G. Ó.) vildi reyna að gera þau hlægileg. Vegna þrengsla eru margir fátæklingar eldavjelarlausir; þeir búa í einu herbergi með fjölskyldu sína og verða að sjóða alt á „primusum.“ Á áttavita á skipum hefir það einnig verið notað, þó ilt sje. Einnig mikið til ýmiskonar iðnaðar. Ýms heimili nota 10–12 lítra á ári. Þetta dregur sig saman, svo ekki er ástæða til að halda, að mikið af því, sem innflutt er, sje notað öðruvísi en heimilt er. Jeg vil beina því til háttv. nefndar, að ef það á að verða eitthvað úr því, að aðflutningsgjald verði lagt á suðuspritt, þá á hún að ganga lengra og sjá um, að hármeðul og alt, sem vínandi er í, verði tollað, og það ekki lægra.