17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (3174)

149. mál, þingsköp Alþingis

Pjetur Jónsson:

Jeg hefi komið hjer fram með brtt., á þgskj. 819, ásamt tveim öðrum. Mjer finst margt mæla með því að fresta útgáfu Alþingistíðindanna, vegna þess hve kostnaðurinn við prentun er nú gífurlegur. Hins vegar er jeg á sama máli og þeir, sem halda því fram, að umræðurnar í Alþingistíðindunum sjeu talsvert lesnar úti um land. Og ef til vill er það hið helsta, sem vekur pólitískan áhuga, að menn í þeim kynnast mismunandi skoðunum og till. þingmanna. Jeg hefi því ekki enn þá breytt skoðun um það, að Alþingistíðindin eigi í rauninni að prenta. En nú finst mjer svo viðurhlutamikill kostnaðurinn við prentun umræðnanna, eins og stendur, að jeg get að því leyti orðið þeim samferða, flm. þessa frv., að fresta honum í þetta sinn. Og þess vegna leggjum við til, að Alþingi sje gefin heimild til að ákveða fyrir eitt þing í senn að fresta prentun umræðnanna.