17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (3177)

149. mál, þingsköp Alþingis

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vil leyfa mjer að lýsa yfir því, að jeg get fallist á brtt. á þgskj. 819, ekki af því, að jeg sje á þeirri skoðun, að það eigi að hætta að prenta þingtíðindin heldur af hinu, að komið gæti til mála, að fresta prentuninni. Prentunin hefir, hvort sem er, ekki þýðingu fyrir næstu kosningar, því að þær verða um garð gengnar áður en þingtíðindin koma út.

En aðalástæðan til þess, að jeg mæli með till., er sú, að jeg hygg, að taka ætti upp það ráð, að prenta að eins útdrátt úr þingræðunum. Því að margar ræðurnar mætti stytta að miklum mun, og mundu þær þá verða miklu aðgengilegri fyrir almenning heldur en þær eru nú, þar sem hann verður að fara yfir alla þá óþarfamælgi, sem töluð er nú á þingi. (E. A.: Hvernig á að finna viðunandi skipulag?). Jeg hygg, að það sje ósköp einfalt mál. Það þarf ekki annað en að fá mann til að stytta ræðurnar, draga saman í þeim meginefnið, sem einhverju máli skiftir. Auðvitað gæti komið til mála að stytta ekki einstaka ræður, eins og t. d. „program“- ræður. En fjöldann allan má stytta, og jafnvel fella sumar burt, sem eru ekki annað en keskni eða spaugsyrði.

Jeg mun þess vegna greiða atkv. mitt með till. En ef hún verður feld, mun jeg verða á móti frv., eins og jeg hefi áður lýst yfir.