20.09.1919
Efri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (3190)

155. mál, vörutollur

Frsm. (Magnús Torfason):

Hjer er að nokkru leyti um að ræða samskonar tekjuauka og samþ. var hjer áðan í fyrsta málinu.

Um tekjurnar yfirleitt þarf jeg því ekki að fjölyrða frekar; þær eru, eins og jeg hefi áður bent á, mjög varlega áætlaðar, og það svo, að jeg tel ekki mikið, þótt þær færu 20% fram úr áætlun. Og eftir því, sem fjárlögin fara nú frá okkur, má jafnvel gera ráð fyrir tekjuafgangi, þannig, að við ættum um 2 milj. til að mæta útgjöldum, sem stafa af sjerstökum lögum. Reyndar hljóta ávalt að vera um þetta talsverðar ágiskanir. En þó er það víst, að enginn nauður rekur nú til þess að hækka mjög gjöldin. Þess vegna hefir nefndin ekki heldur tekið neina afstöðu gagnvart 3. gr., eða hversu mikið eigi að hækka hundraðstöluna, því þegar til hækkunarinnar kemur, eru fleiri vegir til, t. d. að hækka grunntöluna. En um þetta vildi nefndan gjarnan heyra álit hv. deildarmanna.

Annars skal jeg geta þess um þessar frv. breytingar í heild, að þær eru fram komnar til að bæta úr sýnilegum meingöllum og ósamræmi á núgildandi vörutollslögum. Jeg hefi látið setja með skáletri allar breytingar, til hægðarauka.

Fyrst er þá þess að geta, að jeg hefi sett blakkfernis á eftir tjöru, því það á auðvitað saman.

Þá er tollur á tunnuhlutum gerður jafn og á heilum tunnum, því ekki þótti hæfa að tolla efnið hærra en tilbúinn hlutinn. Það yrði bersýnilega til að spilla fyrir innlendum iðnaði, en íslensk tunnugerð er töluvert að vaxa.

Tunnuhlutum hefir áður verið skift í 3 flokka, og voru tunnustafir í 5. fl., en botnar og gjarðir í 6. fl. Þetta veldur ávalt ruglingi og rifrildi þegar á að innheimta gjaldið.

Næsta brtt. er um það, að setja seglgarn í 2. fl., í stað 6. fl. Eins og sjá má, er netjagarn í 2. fl., en mest af seglgarni er einmitt notað í net. Er því eðlilegast, að hvorttveggja sje í 2. fl., og það því fremur, sem færi eru þar, en seglgarn er líka notað í lóðartauma.

Sömuleiðis fer 3. brtt. fram á það, að setja striga í 2. fl., vegna þess, að tilbúin segl eru í þessum flokki, og yrði því efnið dýrara en tilbúin varan, ef ekki væri breytt. Sama er að segja um „presenningar“.

Loks hefi jeg fært fernisolíuna um set, því sjálfsagt er að hafa öll byggingarefni í lágum flokki.

Um olíurnar er það annars að segja, að þar sem steinolía og bensín eru aflgjafar, eiga þær að vera í 1. flokki, en smurningsolía hins vegar í 2. fl., því hún er ekki aflgjafi.

Í 6. gr. er „pappír“ með skáletri, þó svo eigi eiginlega ekki að vera. Jeg hafði að eins flutt þetta orð á sinn stað, en það stóð áður innan um járnbúta og tilbúin áburðarefni, en viðkunnanlegra þótti að telja pappír upp með prentuðum blöðum og bókum.

Annað þarf jeg ekki að taka fram um einstakar greinar, en um málið í heild sinni get jeg vísað til þess, sem jeg sagði í upphafi.