22.09.1919
Neðri deild: 70. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í C-deild Alþingistíðinda. (3300)

156. mál, bannmálið

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg hafði hugsað mjer að taka fram svipað og hv. þm. Stranda. (M. P.).

Jeg skal taka það fram um áttavitana, að drykkjuskapur þeirra hefir stóraukist; þeir eru orðnir verstu fylliraftar. Áfengið frýs á þeim hvað eftir annað, og þegar búið er að þýða það, er það ónýtt, og þá verður lögreglustjóri að gefa ávísun á nýtt áfengi. Áður en bannlögin gengu í gildi var fjöldi áttavita, sem engan spíritus þurfti. En nú duga þeir ekki nema þeir sjeu blindfullir af spíritus. Jeg skal geta þess, bannmönnum til bragðbætis, að fyrsta misseri þessa árs var þegar búið að flytja til landsins yfir 50 þús. lítra, eða nálega eins mikið og flutt var inn síðasta ár, svo að það er gott útlit fyrir, að 100 þús. lítrar verði fluttir inn þetta ár. Og þetta hafði verið flutt inn fyrir 1. júlí, svo að það getur ekki stafað af ótta við nýja tolla. Jeg skýt þessu að eins fram til þess að sýna, að það er ekki ólíklega til getið hjá mjer, að ekki muni líða á löngu áður en löglegur innflutningur yrði eins mikill og hann var fyrir bannið.

Jeg hygg, að menn hafi ekki enn þá komið auga á spillinguna af bannlögunum, eins og hún er. Annars mundu þeir ekki standa móti þessari till. Jeg játa að vísu, að till. sje ef til vill fullsnemma borin upp. En jeg gat ekki stilt mig um að hreyfa þessu, til þess að kjósendum gæfist tækifæri til að láta í ljós álit sitt á því, hvort þjóðin eigi að halda lengur áfram á þessari braut. Og að jeg hafi ekki farið rangt með það, sem jeg hefi sagt um áfengisbölið, geta menn gengið úr skugga um, ef þeir athuga ástandið hjer í þessum bæ, þegar degi hallar úir og grúir á götum bæjarins af ölvuðum mönnum, og mjer er sagt af mönnum, sem vel mega vita það, að fleiri og færri af þessum náungum sjeu daglega hýstir í „steininum“.