22.09.1919
Neðri deild: 70. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í C-deild Alþingistíðinda. (3303)

156. mál, bannmálið

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg skal vera stuttorður. Jeg sje ekki neina ástæðu til að svara ræðu hv. þm. N.-Ísf. (S. St). Það sæmir varla í þessu máli að láta eins og krakkar. Jeg vildi að eins geta þess, að mjer skilst af ræðum hv. þm. (S. St), að hann komist altaf að öfugri niðurstöðu við það, sem ætla mætti af því, sem hann færir til sem ástæður fyrir. máli sínu. Hann tekur mörg atriði rjettilega fram, en dregur svo rangar ályktanir af þeim. Gæti jeg sýnt fram á það með rökum, ef jeg áliti þess vert að tefja með því tímann.

En það var hv. þm. Stranda. (M. P.), sem kom mjer til að standa upp. Hann sagði, hv. þm. (M. P.), að jeg hefði sagt, að það áfengi, sem inn væri flutt, væri mest flutt inn af læknum og notað ólöglega. Það voru ekki mín orð. En hitt sagði jeg, að til væru þeir læknar, sem misbrúkuðu áfengi, og ætla jeg, að hv. þm. Stranda. (M. P.) muni ekki standa upp til að neita því. En jeg tel það mjög auðvelt að sýna hið sanna í þessu efni, svo að engin yrði saklaus hafður fyrir rangri sök. Það mætti gera hlutaðeigendum að skyldu að gera fullkomnar skýrslur um áfengiskaup sín og um útlát og notkun þess áfengis. Er það mjög einfalt ráð, og finst mjer, að læknar ættu að geta sætt sig við það, nema þá má ske þeir, sem nota heimild sína meira en góðu hófi gegnir og rjett er.

Á aðrar brtt. minnist jeg ekki, nema brtt. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), sem jeg tel rjett að samþ. En auk þess er brtt. á þgskj. 915, sem rjett er að minnast á, frá hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.). Sú till. held jeg að eigi lítinn rjett á sjer. Það er víst, að þing kemur tvisvar saman fyrir þann tíma, sem hv. þm. (B. Sv.) vill að atkvgr. fari fram. Jeg vænti þess því, að hv. deild felli þá till.