22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í C-deild Alþingistíðinda. (3375)

59. mál, bann gegn refaeldi

Flm. (Björn R. Stefánsson):

Þótt ekki sje löng greinargerð fyrir þessu frv., má þó glögt sjá, hver meiningin er með því, sem sje að eyða refum hjer á landi. Ástæðan til þess er sú, að refum hefir fjölgað talsvert nú á síðari árum, og mikil brögð verið að dýrbiti. Þetta mun að líkindum stafa af því, að refir hafa sloppið úr eldi. Menn vita þess dæmi, að slíkt hefir átt sjer stað, og það leikur sterkur grunur á, að það komi oftar fyrir en menn alment viti um, eða geta sannað. Máli mínu til stuðnings skal jeg geta þess, að á Austfjörðum varð lítið vart við tófur frá aldamótum og alt til 1916 en þá brá svo við, að stefnuvargur mikill kom alveg ofan í bygð, og hagaði sjer gerólíkt þeim tófum, er við áður áttum að venjast. 19. aldar tófur hjeldu sig mest á afrjetti og uppi til fjalla, en þessi vargur sótti alla leið til sjávar og drap þar lömbin í fjörunni. — Refir voru þá drepnir unnvörpum að vísu, hvar sem til náðist, en þó var litlu betra næsta ár, og nú í vor síðastl. var meira um dýrbit en nokkru sinni áður.

Jeg veit, að menn munu hafa það á móti þessu frv., að með því sje verið að kippa fótum undan arðvænlegri atvinnu manna, og jeg skal játa, að mjer þykir leitt, að hægt skuli vera að segja það með nokkrum rjetti. En hitt tel jeg miklu þýðingarmeira atriði, að þessi atvinnugrein leiðir af sjer mikla eyðileggingu og stórtjón fyrir fjölda manna, og þess vegna verður að taka fyrir það, svo sem auðið er, því fárra manna hagsmunir mega ekki sitja fyrir almenningsheill. Það kann nú að verða borið fram á móti þessu máli, að auðvelt sje að gæta þess, að refir sleppi ekki úr eldi, en jeg held, að því sje vart treystandi, hversu strangar reglur sem settar yrðu. Víðast hvar er refaeldi þannig fyrir komið, að þeir eru aldir upp í eyjum og ganga þar lausir. Svo þegar ísa leggur milli lands og eyja, sem kemur fyrir í frosta- og ísaárum, geta þeir gengið óhindraðir til lands. Jeg gæti nefnt dæmi þessu til sönnunar, ef vefengt verður. Menn hafa og talað um, að svo tryggilega mætti búa um refabyrgi, að engin hætta stafaði af. Það kann nú að vera mögulegt að ganga svo frá byrginu, að örugt sje, en ekki þarf annað en að í eitt skifti sje hirðuleysislega gengið um, til þess að alt sleppi. Jeg tel því, að ekki sje tryggilega girt fyrir þennan voða, nema með því að banna refaeldi algerlega.