04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í C-deild Alþingistíðinda. (3415)

108. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi í Siglufirði

Flm. (Stefán Stefánsson):

Jeg hygg, að ekki sje þörf á að fara mörgum orðum frv. þetta. Greinargerðin, sem fylgir því, er svo ljós, að þar er litlu við að bæta. Að eins skal jeg taka það fram, að málið var til umr. á þingmálafundi á Siglufirði og samþykt þar af öllum fundarmönnum, sem voru 70 að tölu. það er öllum kunnugt, hversu mikil nauðsyn það er hverju bæjarfjelagi, að fá full umráða- og eignarrjettindi á því landi, sem það þarf að nota, hvort heldur sem byggingarlóðir, til túnræktar, haglendis eða annara óumflýjanlegra afnota. Enn fremur vil jeg vekja athygli hv. þm. á því, að nokkurt ósamræmi er á milli frv. og greinargerðarinnar að því er snertir 2. lið hennar. Í frv. er sem sje undanskilið sölunni íbúðarhús prestsins og önnur jarðarhús, heimatúnið, haglendi fyrir skepnur prestsins, svo og rjettur til mótaks í jörðinni Leyningi eftir þörfum hans. En í greinargerðinni er gert ráð fyrir, að túnið fylgi með í sölunni, svo og alt land annað. Þetta kemur til af því, að farið var fram á. af bæjarstjórn Siglufjarðar að fá jörðina keypta að fullu og öllu, en þegar til hjeraðsfundar kom, þá var hann mótfallinn því, að tekin yrðu af prestinum þau hús og landsnytjar, sem frv. telur. Þetta virtist okkur flm. frv. rjettmæt og ofureðlileg athugun hjá hjeraðsfundinum og tókum hana því til greina, en að öðru leyti þótti okkur rjett að fara eftir greinargerð bæjarstjórnarinnar, enda er hún að öðru leyti mjög glögg og leiðbeinandi í málinu. Þá vil jeg geta þess, að jeg átti tal við biskup um málið. Hann virtist því hlyntur, en óskaði að fá umsögn viðkomandi prests, að því er þetta snerti. Nú er biskup farinn norður í land í visitasíuferð, en símskeyti frá prestinum hefi jeg fengið, svo hljóðandi:

„Jeg er meðmæltur sölu Hvanneyrar til Siglufjarðarkaupstaðar, þannig, að undan sölunni sje skilinn sá hluti af húsum á Hvanneyri, sem tilheyrir landssjóði, svo og túnið, rúmar 10 dagsláttur að stærð.“

Þykist jeg nú vita, að biskup verði eindregið með málinu, þegar hann hefir heyrt þessi ummæli prestsins. — Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að orðlengja þetta, en leyfi mjer að leggja til, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar, að umr. lokinni.