08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í C-deild Alþingistíðinda. (3478)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Flm. (Bjarni Jónsson):

Við höfum borið fram þessa till. eftir einróma áskorunum úr tveim, eða öllu heldur þrem, kjördæmum, Dalasýslu og Barðastrandarsýslu og miklum hluta Norður-Ísafjarðarsýslu. (M. P.: Einróma?). Að minsta kosti einróma í Dalasýslu; um annað þarf jeg ekki að fræða þm. (M. P.). Meðflm. mínir munu væntanlega geta frætt hann um álit manna í Barðastrandarsýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu.

Till. er fram komin fyrir þær sakir, að nú hefir það verið gert að fornspurðum hlutaðeigandi hjeruðum að breyta gömlum póstgöngum, sem legið hafa yfir Dalasýslu og innri hluta Barðastr.-sýslu alla tíð síðan póstgöngur hófust. Þetta þykir svo mikið óhagræði, að eigi verði við unað, og hafa mínir kjósendur beðið mig að fá leiðrjetting þessa máls. Vænta þeir, að hv. Alþingi bregðist vel við og líti á nauðsyn þessa hjeraðs, svo að hlutur þess verði ekki fyrir borð borinn. Annars er mönnum með öllu ókunnugt um, hvað valdið hefir nýbreytni þeirri. Jeg hefi að vísu heyrt því fleygt, að komið hafi til sparnaðargrillur nokkrar. Þori jeg ekki að fara út í þá reikninga, þótt jeg efist mjög um, að þeir sjeu rjettir. En undarlegt þykir mjer, ef mikið sparast við það, að láta póstflutninginn fara norður Holtavörðuheiði til Staðar í Hrútafirði og þaðan vestur í Dali. Það er miklu krókóttari leið en póstleiðin eftir Bjarnadal og Bröttubrekku vestur í Dali.

Það, sem farið er fram á í till. þessari, er ekki í neinn máta til að spilla fyrir Strandamönnum. Hv. þm. Stranda. (M. P.) sýnist ókyr í sæti. En hann getur verið rólegur, því jeg vil ekkert gera kjósendum hans til bölvunar. Jeg myndi á allan hátt styðja að því, að þeir fái vegabætur og póstgöngur á Steingrímsfjarðarheiði. En jeg vil ekki, að þeir taki póstgöngur af Dalasýslu. Jeg flyt ekki till. þessa til að metast við þá, heldur af því, að Dalamenn vilja halda þeim póstgöngum, er þeir hafa haft. Liggja fyrir um þetta brjef frá þeim.

Í öðru lagi er það, sem þó má teljast aukaatriði í máli þessu, að sumum hlutum sýslunnar er með gömlu póstgöngunum hægra að svara brjefum um hæl, ef nokkuð liggur við. En hitt lögðu menn aftur mikla áherslu á, að póstferðirnar hafa verið mönnum nokkurskonar samgöngutæki á fjallvegum. — Menn hafa farið fjallveginn Bröttubrekku í póstfylgd um vetrartímann. Margur er ekki svo sjálffær, að hann þurfi ekki kunnugan mann til fylgdar. Er það þá fangaráðið að vera póstinum samferða. Annars væru þær ferðir miklu dýrari, erfiðari og hættulegri. Á þetta atriði lögðu sýslubúar ákaflega mikla áherslu, því að það er svo alvanalegt, að menn þurfi að fara yfir fjallveg þennan, bæði suður og sunnan.

Þar sem nú sparnaðurinn við hina nýju tilhögun er, eftir því, sem jeg hefi heyrt, 2000 kr. eða svo, þá sje jeg ekki, að neitt sje því til fyrirstöðu, að þingið láti eftir þessum þrem sýslum, er allar óska, að póstgöngurnar haldist eins og áður. Jeg þori ekki að neita þessum reikningi, sem póstmeistari hefir gert, eða einhver hans manna, að þessi breyting verði 2–3 þús. kr. ódýrari. En jeg veit ekki, hvort hann hefir tekið með í reikninginn þær vegabætur, sem nauðsynlegar verða, ef pósturinn á að fara yfir Steingrímsfjarðarheiði. (M. P.: Þurfa þær vegabætur ekki að koma hvort sem er?). Jú, og jeg ætla að fylgja því, að nauðsynlegar vegabætur komi þar. Jeg veit ekki, hvort Strandamenn flytja svo mikið þann veg, að kosta þurfi til vegar sem góðir póstvegir þurfa að vera, en tel aftur sjálfsagt, að þar þurfi að ryðja sæmilega færan fjallveg, og tel einsætt, að svo verði gert.

Skal jeg nú ekki eyða fleiri orðum. Vona jeg, að aðrir hv. þm., og þó einkum þeir, er standa á till., láti hv. deild vita, að það er ekki ósatt, sem jeg hefi sagt um þörfina á því, að póstgöngur þessar haldist þær sömu og áður.