01.09.1919
Neðri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í C-deild Alþingistíðinda. (3494)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Sigurður Stefánsson:

Jeg ætla að eins að segja fáein orð út af síðasta lið till. Nefndin er honum mótfallin, eins og sjá má á áliti hennar, en af hvaða ástæðum hún er það, sjest ekki, nema það sje, að hún haldi, að það muni valda ríkissjóði lítils háttar útgjöldum. Hv. frsm. (E. Árna.) upplýsti, að enginn mundi fást til að taka að sjer ferðir til Hesteyrar fyrir minna en 100 kr. Jeg vil gera þá fyrirspurn til hv. frsm. (E. Árna.), hvað ferðin til Hesteyrar hafi kostað áður, meðan hann beið eftir Aðalvíkurpóstinum. Í nál. er ekki tekið fram, hve hár kostnaðaraukinn muni verða. Og eftir því, sem jeg kemst næst, mun það ekki vera vel ljóst fyrir hv. nefnd sjálfri. Þá sagði hún og, að þörfin væri ekki brýn. Slíku má slá fram. En það eru staðhæfingar, sem spretta af vanþekkingu. Jeg hefi áður upplýst, að þar væru tvö fiskiver, með 300 manns, sem svift væru því hagræði, að geta svarað brjefum sínum með sama pósti og þau kæmu. — Fara má á tæpum tveim tímum hvora leið. Þegar svo litið er til þess, að hjerað þetta er eitt hið afskektasta á öllu landinu, og þessir veslings menn eru firtir öllum samgöngum á sjó og landi, nema þessum póstsamgöngum, þá virðist það ekki vera til mikils mælst, þó þeir fái að halda þessum ferðum, sem þeir telja sjer hag í, þótt það kostaði landssjóð nokkrar krónur. Óupplýst um kostnaðarauka. Hv. nefnd hefir játað það, að henni væri ókunnugt um hann. Maður skyldi halda, að hún hefði kynt sjer hann, áður en hún slær því fram, að ferðirnar muni valda allmiklum kostnaði. En hún hefir ekki haft fyrir því. Það er því ekki að vita, að hann nemi svo miklu, og enda þótt hann væri nokkur, verð jeg að álíta, að brýn þörf beri til, að þessi olnbogabörn landsins og náttúrunnar verði ekki svift þessu litla hagræði. Þótt jeg telji nokkra bót í því, að póstur gangi úr Aðalvík til Hesteyrar til móts við Ísafjarðarpóstinn, þá er það ekki nærri því eins hagkvæmt eins og að geta svarað brjefunum með sömu ferð.