06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í C-deild Alþingistíðinda. (3709)

87. mál, dýralæknar

Þorsteinn Jónsson:

Það er ekki að ófyrirsynju, að hjer er fram komið frv. um fjölgun dýralækna, því lærdómurinn til þess að verða dýralæknir er dýr, og fáir munu leggja það nám fyrir sig, nema þeir eigi von á starfi að náminu loknu. Þess vegna verður að byrja á að samþ. frv. um fjölgun dýralækna. Læknarnir fást ekki fyr. Jeg tel dýralækna vera lyftistöng fyrir landbúnaðinn. Sú var tíðin, að ekki var nema einn mannalæknir á landinu. Þá fanst mönnum það vera hæfilegt. Síðan urðu þeir fjórir. Skottulæknarnir fyltu í skörðin. En þetta hefir breyst. Eins er um dýralæknana nú, sem fyr meir var um mannalækna.

Brtt. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og 1. þm. Skagf. (M. G.) álít jeg vera nauðsynlega viðbót við frv. Þótt dýralæknarnir verði jafnmargir og frv. gerir ráð fyrir, nægir sú tala alls ekki. En hver aukin þekking gæti komið að notum. Og sú fræðsla, sem menn geta fengið á námsskeiði, mundi koma að meira haldi en að fara eingöngu eftir sínu höfði. Það hefir lengi tíðkast hjer á landi, að einstakir menn hafa fengist við að lækna dýr, og reynst þar öðrum snjallari, þótt ólærðir væru, líkt og skottulæknarnir gömlu, sem oft komu að góðu liði. Slíkir skottulæknar hafa oft orðið að miklum notum, t. d. við venjuleg meiðsli, svo sem fótbrot o. þ. u. 1. Og námsskeiðin ættu að geta kent mönnum meðferð slíkra sjúkdóma.

Mig furðar á, að nokkur skuli halda þeirri skoðun til streitu, að hættulegt sje að breiða út þekkingu á dýralækningum. Mjer finst það vera skylda dýralæknanna að stuðla að slíkri fræðslu. Enda vill svo vel til, að einn dýralæknirinn tjáði mjer, að það væri sín skoðun, að þetta væri mesta nauðsyn, og taldi rjett að ganga inn á þá braut, að fræða fólkið í þessum efnum, einmitt með því, að dýralæknar hjeldu námsskeið.

Aukin fræðsla verður altaf til bóta; hún getur aldrei orðið til tjóns. Þeir, sem ekki ná til dýralæknanna — og þeir verða margir — munu reyna að hjálpa dýrum sínum sjálfir. Því að einkum hafa þeir not af dýralæknunum, sem búa í námunda við þá. Aðrir geta ekki vitjað þeirra.