08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í C-deild Alþingistíðinda. (3716)

87. mál, dýralæknar

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal reyna að vera hvorki langorður nje myrkur í máli.

Jeg vil lýsa yfir því, að jeg er mótfallinn frv., og hefði helst óskað, að því hefði aldrei auðnast að koma frá 2. umr., en það skreið þá í gegn, af því að deildin var að eins ályktunarfær sakir mannfæðar.

Það, sem jeg vildi í fáum orðum sagt hafa, er þetta: Ef á að fjölga dýralæknum svo, að komi almenningi að nokkru verulegu gagni, þyrfti að fá lækni í hverja sveit. Af dýralækni hafa ekki aðrir not en þeir, sem búsettir eru í grend við hann. Og þetta er eðlilegt, því að gripir eru yfirleitt ekki svo mikils virði, að mönnum þyki svara kostnaði að vitja læknis til þeirra langa leið. Slíkt gæti helst átt sjer stað um kostagripi. t. d. góða reiðhesta og því um líkt, en nær ekki til ódýrari gripa, eins og t. d. sauðfjár eða alifugla. Hin almennu not dýralækna eru þess vegna einkum að sporna við sýkingu í fjenaði, til þess að forða heildinni við hættu, þegar einhver útbreidd sýking eða faraldur ásækir fjenaðinn. Og til þess nægja þessir 4 dýralæknar, sem nú eru á landinu. En með þeim launum, sem mönnum þessum eru ætluð, verða þeir að eins notaðir af þeim, sem búa í grend við þá, því að engum kemur víst til hugar að launa þá svo, að þeir kauplaust geti farið lækningaferðir.

En það er annað, sem hefði átt að lögleiða í stað þessarar fjölgunar dýralækna, og það er brtt. frá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) um dýralækninganámsskeið. Slík námsskeið mundu geta komið að góðu haldi. Bændur verða að hjálpa sjer sjálfir í þessu efni, sem frekast er unt, og eins og þeir jafnan hafa gert, en námsskeið hjá dýralækni um meðferð sjúkra alidýra mundi ljetta mjög slíka „sjálfsvörn“. Það mun að vísu vera regla við kenslu í búnaðarskólinn að veita nemendum tilsögn í meðferð á algengum alidýrasjúkdómum. Og jeg held, að sú tilsögn hafi komið að miklum notum. En þeirrar tilsagnar hafa margir eigi notið, og gætu því haft fulla þörf á að sækja námsskeið hjá dýralækni, enda um nýjar aðferðir og breyttar að ræða hjá dýralæknum, sem öðrum læknum, og nauðsynlegt að fylgja þeim.

Frv. er algerlega óþarft og nær eigi þeim tilgangi, sem því er ætlaður. En hins vegar eykur það gjöld landssjóðs að óþörfu, og lýtur að stofnun embætta, sem flestum öðrum eru óþarfari. Það er að eins ein gorkúla í viðbót við þær, sem komnar eru.