27.08.1919
Neðri deild: 46. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í C-deild Alþingistíðinda. (3789)

133. mál, lestagjald af skipum

Björn R. Stefánsson:

Jeg vil ekki, að þetta frv. fljúgi í gegnum hv. deild, án þess að hv. þm. veiti því eftirtekt.

Jeg tel mjög vafasamt, hvort háttv. deild á að leggja sig eftir þessum skatti, því að hann kemur ekki að eins niður á stóru skipunum, heldur kemur hann og hart niður á smábátum hjer við land, þar sem svo er ákveðið, að hann skuli lagður á báta, sem mælast 12 smálestir „brúttó“. En ef þetta frv. á að samþ., verður að minsta kosti að setja „nettó“ í stað „brúttó“, því annars er frv. með öllu ótækt. Annars teldi jeg best farið, að þetta frv. yrði alls ekki samþ. Hv. nefnd vildi ekki taka til athugunar till. þær, er jeg bar fram fyrir nokkru, og höfðu í för með sjer 80 þúsund kr. tekjuauka fyrir landssjóðinn; af þessu frv. er áætlaður 40 þús. kr. tekjuauki á ári, og með því að nefndinni fanst ekki muna neitt um tekjuaukann af till. mínum, ætti henni ekki að finnast, að mikið munaði um þetta.

Auk þess ber þess að gæta, og hefir oft verið að því vikið, að flest þau fjáraukafrv., sem legið hafa fyrir þessu þingi, hafa komið niður á sjávarútvegsmönnum. Mætti svo segja, að þeir hafi verið eltir vakandi og sofandi, og væri því ekki nema sanngjarnt að láta nú undan draga bútana sjálfa, úr því að alt er skattlagt með hækkuðum sköttum í ár, sem á þá fæst og á þá þarf að nota.