04.08.1919
Efri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Eggert Pálsson:

Eins og málið liggur fyrir, getur vart annað komið til mála en að ljá því fylgi, hvort sem menn eru ánægðir með ráðstafanir stjórnarinnar eða ekki.

Það orkar mjög tvímælis, hvort það er gott eða ekki, að stjórnin hefir tekið mál þetta í sínar hendur.

Ýmsar sagnir ganga um það, að ráðstafanir þessar geti eins vel orðið til tjóns hrossaeigendum, eins og þeir hafi hag af þeim, en mig vantar gögn til að leggja dóm á slíkt, og mun jeg því leiða það hjá mjer.

Hins vegar lít jeg svo á, að rjettara hefði verið af stjórninni að taka ekki einkasölu á hrossum í sínar hendur, enda munu litlar nauðsynjar hafa rekið hana til þess.

Mjer er ekki kunnugt um, að almennur vilji hrossaeigenda hafi knúð hana til þess; að minsta kosti kom enginn slíkur vilji fram austan fjalls. Ef til vill hafa einstakir menn ráðlagt henni að gera svo, en fundir voru þar engir haldnir um þetta mál. Og þar af leiðandi engar fundarsamþyktir gerðar, sem stjórnin hafi getað stuðst við.

En hafi svo verið að almennur vilji hrossaeigenda hafi eigi knúð stjórnina til að stíga spor þetta, þá álít jeg, að rjettara hefði verið af henni að leiða það hjá sjer.

Það er svo margt, sem stjórnin fær ámæli fyrir, að ekki virðist rjett af henni að taka á sig ábyrgð á ráðstöfunum, sem enginn nauður rekur hana til, og orkar jafnvel tvímælis hvort sje til góðs eða hins gagnstæða, eins og þessi ráðstöfun hefir gert og gerir alla tíð. Því jeg hygg, að aldrei verði til fullnustu úr því leyst, hvort það hefir orðið til góðs eða ills, að stjórnin tók það í sínar hendur.

Jeg mun ekki greiða atkv. móti frv., en vildi þó taka það fram, sem jeg nú hefi sagt.