23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í C-deild Alþingistíðinda. (3889)

77. mál, rannsókn símleiða Árnessýslu

Björn R. Stefánsson:

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) efaðist um, að landssímastjórinn hefði næga þekkingu til að geta skorið úr, hvar síma væri mest þörf. Þetta getur vel verið, og skal jeg ekkert þrátta um það, en þó veit jeg, að hann hefir varið miklum tíma því til athugunar. En ef þessu er nú samt þannig varið, þá sje jeg ekki betur en að hann hafi þess betra af að tala við samgöngumálan., til að auka kunnugleika sinn. Í þeirri nefnd sitja menn úr öllum landsfjórðungum, sem mundu geta gefið honum upplýsingar um það, sem hann kynni að vera ófróður um. (J. B.: Jeg var ekki að hafa á móti því).

Þá var svo að heyra á hv. þm. (J. B.), sem þörfin væri hvergi eins mikil. (J. B.: Það sagði jeg ekki). Svo var að minsta kosti að heyra á hv. þm. (J. B.). Jeg held, að þetta komi af því, að hann hefir nú lengi búið hjer í Reykjavík og vanist öllum þeim bestu nútíðartækjum, sem land okkar hefir að bjóða, en aldrei fundið, eða skilið, hvað það er að vera án þeirra, eins og ýmsir landshlutar hafa orðið að sætta sig við, fyr en nú, að hann sjálfur verður að sæta þeim kjörum, sem menn búa við þar.

Að málið þurfi að tefjast við það, að fara í nefnd, held jeg, að ekki komi til mála, því að það er nú upplýst — sem jeg ekki vissi áður — að landssímastjórinn er ekki í bænum nú, svo hann gerir ekkert í svipinn, hvort sem er, til þess að framkvæma það, sem till. fer fram á.

Jeg ætla að endingu að taka það enn einu sinni fram, að það er svo langt frá mjer að vilja tefja málið. Jeg álit það að eins nauðsynlegt, að menn tali sig saman, til þess að hægt verði að komast að sem bestri niðurstöðu. Jeg skal gera það, sem í mínu valdi stendur, til að flýta málinu, en jeg verð að halda fast við þá till. mína, að vísa málinu til samgöngumálanefndar.