19.07.1919
Neðri deild: 11. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Magnús Pjetursson:

Umræður eru orðnar svo langar, að jeg hálffyrirverð mig fyrir að lengja þær enn meira. Annars verð jeg að segja það hreinskilningslega, að jeg skil ekki, hvað alt þetta málæði á að þýða út af þessu frv.; mjer finst ágreiningurinn ekki svo mikill, að minsta kosti ekki milli hv. þm. Ísafjarðarsýslu og stjórnarinnar. Skal jeg færa rök fyrir þessu.

Bæði hæstv. stjórn og brtt.mennirnir eru sammála um það, að leggja aukinn skatt á landbændur; að eins kemur þeim ekki saman um aðferðina. Stjórnin vill taka skattaukann með því að hækka ábúðarskattinn, en tillögumennirnir með útflutning gjaldi. Eftir áætlunum yrði þessi skattur líkur að upphæð hjá hvorumtveggja aðilja. Hvers vegna leggur þá háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) svo mikla áherslu á þessa brtt.? Jú, hann segist gera það vegna þess, að hann vill koma þeirri stefnu inn, að útflutningsgjald verði lagt á landafurðir. En þetta er einnig ástæðulaust að gera að kappsmáli, því það hefir þegar verið lagður útflutningstollur á landafurðir. Það var gert hjer á síðasta þingi. Það er gert með stimpilgjaldslögunum. Það var gert þegar stimpilgjald var lagt á farmskrár. Þessi ástæða hv. þm. V.-Ísf. fellur því niður, og hann getur verið fyllilega ánægður. Hans stefna hefir verið þannig upp tekin, svo hann má að því leyti vera ánægður. Af því, sem jeg þá hefi þegar sagt, ræður af líkum, að jeg álít smávægilegt atriði, hvort þessi till. þm. V.-Ísf. verða samþ. Verði þær samþ., fellur að sjálfsögðu hækkun ábúðarskattsins, en verði till. feldar, þá treysti jeg því, að ábúðarskattsfrv. verði samþ.

Landbúnaðurinn fær þá eftir sem áður aukinn skatt, og tel jeg ekkert á móti því, vegna þess, að jeg er algerlega á sömu skoðun og háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), að ekki megi alveg draga landbúnaðinn undan skattaálögum, þar sem einmitt þetta þing verður að leggja miklu meira af mörkum við hann hlutfallslega en við aðra atvinnuvegi landsins.

Það var ekki tilgangur minn að ræða mikið um brtt., en úr því að jeg stóð upp, get jeg ekki látið hjá líða að beina þeirri spurningu til háttv. fjárhagsnefndar, hvort hún telji það ómögulegt að laga nú stimpilgjaldslögin og taka út úr þeim útflutningsgjaldið og færa það yfir í þessi lög.

Þótt það hafi reynst mjög þægilegt að innheimta það gjald á þennan hátt, þá er ekki víst, að svo verði altaf.

Meðan ófriðurinn stóð yfir hafa allar afurðir oftast verið seldar áður en þær voru fluttar út. En fyrir ófriðinn voru þær oft fluttar út áður en þær voru seldar, og liðu oft jafnvel 6 mánuðir frá því þær voru fluttar á skipsfjöl og þangað til þær seldust, og seldust þær þá oft við alt öðru verði en við var búist í fyrstu.

Ef slíkt fyrirkomulag tækist nú upp aftur, sem mikil líkindi eru til, mundi þá ekki verða erfið innheimtan á stimpilgjaldinu, sem greiðast á áður en skipin fara af höfn?

Gerum ráð fyrir, að vörurnar seldust hærra en áætlað var. Er þá hægt að innheimta það af stimpilgjaldinu, sem á vantar? Eða ef vörurnar seljast lægra en áætlað var, getur þá seljandi krafist aftur þess af stimpilgjaldinu, sem umfram var greitt.

Alt þetta held jeg sje vafasamt og mjög athugavert, og jeg skil ekki, hvernig því verður við komið, því jeg hefi álitið líkt farið stimpluninni og því, er maður frímerkir brjef og frímerkið er stimplað, að það verði ekki aftur tekið, þó ofborgað reynist.

Jeg þykist þess nú fullviss, að að minsta kosti sumir í háttv. fjárhagsnefnd telji sjer það enga ofætlun að lagfæra þetta. En treysti hún sjer ekki til þess að athuga það fyrir 3. umr., þá gæti það hugsast, að jeg flytti frv. um breyting á stimpilgjaldslögunum, og sömuleiðis brtt. við þetta frv.