09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

14. mál, stofnun Landsbanka

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg ætla að eins að minnast fám orðum á brtt. á þgskj. 324. Helst hefði jeg viljað, að aðalflutningsmaður hennar (J. B.) hefði gert grein fyrir henni áður en jeg tók til máls, en fyrst honum þóknast það ekki, tjáir ekki um það að tala. Jeg get þegar sagt það, að jeg er brtt. mótfallinn, og það af tveim aðalástæðum.

Fyrst er það, að í till. vantar ákvæði um, að Landsbankinn sje skyldur til að taka við fje því, sem hjer ræðir um með sömu vaxtakjörum, sem aðrir tryggir sjóðir bjóða. Þetta tók jeg svo skýrt fram þegar málið var hjer síðast til umr. og svo afdráttarlaust, að jeg bjóst við, eftir því sem umr. fjellu, að háttv. flutnm. mundu taka það til greina, en nú sje jeg, að svo hefir ekki orðið.

Í öðru lagi er jeg mótfallinn till. vegna sparisjóðanna því að hún stefnir enn í þá átt, að hnekkja þeim, og jafnvel drepa þá. Háttv. flutnm. kváðust ekki vilja gera sparisjóðunum mein og kváðust mundu taka til greina það sem brtt. þeirra var fundið til foráttu seinast. En nú kemur það fram, að svo er eigi. Eftir brtt. á þgskj. 324 eiga sparisjóðirnir það undir högg að sækja til stjórnarinnar, hvort þeir megi ávaxta opinbera sjóði og ríkisfje eða eigi; þeir þurfa að sækja um leyfi til stjórnarinnar til þess, og geta jafnan átt á hættu, að þeim verði synjað um það. Þetta ákvæði er því kynlegra og óskiljanlegra, þar sem í sparisjóðalögum frá 3. nóv. 1915 er með berum orðum heimilað að geyma fje ómyndugra og opinberra stofnana í sparisjóðum, sem fullnægi fyrirmælum greindra laga. En nú á að fara að skipa þeim að sækja um leyfi til þessa, eða með öðrum orðum að sækja um leyfi til þess að fara eftir hinum gildandi sparisjóðalögum. Yrði þessi brtt. samþ. þyrfti að sjálfsögðu að nema úr gildi 22. gr. sparisjóðalaganna.

Að öðru leyti kann jeg ekki við orðalagið á hinni nýju brtt. Þannig er það mjög óviðkunnanlegt að tala um að hafa handbært fje á sjóðvöxtum og allóskýrt og síst betra en var í brtt. á þgskj. 279. Líklega er í báðum tillögunum átt við handbært fje til að setja á vöxtu. Þá er það naumast rjett að tala um það að staðhættir banni að koma fje á vöxtu í Landsbankann, svo sem jeg hefi áður tekið fram. Það, sem vaka mun fyrir flutningsmönnum brtt., kemur ekki fram í henni nema að litlu leyti. Geti þeir komið henni í rjett horf, lofa jeg þeim stuðningi mínum til að koma henni fram. En jeg mun sporna móti því, að sparisjóðum sje hnekt, því að þeir eru augasteinn hjeraðanna og eiga skilið að vera það. Og jeg skil ekki í hví sumir þeirra, sem við brtt. eru riðnir, hafa gerst flytjendur hennar. Jeg veit ekki betur en í hjeruðum þeirra sjeu sparisjóðir, sem þar hafa orðið að góðu liði, og jeg geri ekki ráð fyrir, að þeir telji sjóðum þessum ekki trúandi fyrir fje því, sem þeir vilja nú láta svifta þá að hafa til meðferðar. Eiga þeir litlar þakkir fyrir að vilja hnekkja sjóðunum og taka af þeim fje, einmitt það fje, sem þeim er hentugast að hafa til að vinna með.

Það er kunnugt, að rígur nokkur er á milli bankanna og sparisjóðanna, og jeg veit að þessi brtt. er runnin frá Landsbankanum; honum mun meðal annars ekki vera um að sumir sparisjóðirnir gefa hærri vexti en hann. En eigi ætti þetta út af fyrir sig að geta verið mikil meðmæli með brtt.