25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

14. mál, stofnun Landsbanka

Halldór Steinsson:

Eins og nál. ber með sjer, hefi jeg skrifað undir það með fyrirvara og komið fram með brtt. ásamt 1. þm. Rang. (E. P.).

Eins og 8. gr. frv. er orðuð, eru lagðar svo miklar hömlur á frjálst viðskiftalíf, að mjer finst slíkt ekki geta komið til mála. Samkvæmt 8. gr. frv. er Landsbankanum veittur ótakmarkaður rjettur til að krefjast þess, að allar opinberar stofnanir og opinberir sjóðir, er hafa handbært fje á sjóðsvöxtum, skuli geyma það í honum eða útibúum hans, nema sjerstakar ástæður banni, svo sem staðhættir. — Áður en slíkt ákvæði er lögleitt verður að athuga það, hvort hagur sá, er það hefir í för með sjer fyrir Landsbankann, samsvari ógagni því, er landsmenn bíða við það.

Jeg hygg, að Landsbankinn hafi ekki mikinn hagnað af ákvæði þessu, nema því að eins, að hann greiði lægri innlánsvexti en Íslandsbanki. En ef svo væri, væri hjer að ræða um einokunarstimpil á þá stofnun, og óhugsandi, að slíkt yrði þolað til lengdar. Jeg hygg, að bankinn hafi lítinn hagnað af þessu ákvæði, en hins vegar gæti það gert þeim stofnunum, er skyldan kemur fram við, stóran óleik.

Ríkissjóður þarf oft á stórlánum að halda og hefir aftur á móti stundum undir höndum stórfje, er hann þarf að fá geymt nokkra daga. Hygg jeg, að Landsbankanum muni veitast erfitt bæði að ávaxta stórfje, sem hann þarf að endurgreiða eftir fáa daga, og eins hitt, að geta altaf fullnægt lánsþörf ríkissjóðs. Hygg jeg, ef slíkt kæmi fyrir, og ríkissjóður þyrfti að snúa sjer til Íslandsbanka til þess að fá lán, að hann væri tregari að veita þau, þegar Landsbankinn væri búinn að fá einkarjett til að ávaxta fje opinberra stofnana og sjóða.

Hygg jeg því, að slíkt ákvæði sem þetta geti haft óheillavænlegar afleiðingar fyrir stofnanir þær, er skyldan hvílir á.

Brtt. okkar fer eins langt og hægt er til að tryggja Landsbankann. Hún býður, að handbært fje opinberra sjóða og opinberra stofnana sje, að öðru jöfnu, þ. e., ef sömu kjör eru í boði, ávaxtað í Landsbankanum eða útibúum hans. Sama er um ríkisfje og embættisfje, er opinberir starfsmenn hafa undir höndum.

Jeg er tregur til að ýta undir stofnanir, hvort heldur þær eru eign einstakra manna eða hins opinbera, með lögum, sem leggja höft á aðra, og lít svo á, að geti þær eigi lifað án þeirra, eigi þær ekki tilverurjett.