25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

14. mál, stofnun Landsbanka

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Það er reyndar búið að kveða brtt. svo rækilega niður, að óþarfi virðist að bæta nokkru þar við. En jeg get þó ekki stilt mig um að benda á það, að svo virðist, sem hv. flm. brtt. hafi nú alveg skift um skoðun.

Það er stöðugt verið að sífra og suða um það, að engar líkur sjeu til þess, að Landsbankinn geti gefið eins háa vexti og Íslandsbanki, og þess vegna sje hagur að því að hafa innstæðurnar í hlutabankanum, auk þess sem bankinn mundi verða tregari til lánveitinga, ef hann yrði sviftur innlögunum, ef hægt er að tala um að svifta hann því, sem hann hefir engan lagarjett til. En samkvæmt reynslunni er engin ástæða til að ætla, að Landsbankinn gefi lægri vexti, og löggjafarvaldið hefir fullan rjett og skyldu til að styrkja hann og styðja á hvern þann hátt, er það telur best við eiga, og það því fremur, sem ráðstafanir þess áður hafa gert hann að nokkurskonar undirlægju hins bankans, og það verður meðal annars gert með því, að fá þessi innlög opinberra sjóða í hendur honum. Það er vægast sagt óviðkunnanlegt að heyra Íslandsbanka núið um nasir að hann mundi tregari til að lána ríkinu, ef Landsbankinn yrði styrktur að þessu leyti, þar sem það er beinlínis tekið fram í lögum hans, sem eitt af skilyrðum fyrir seðlaútgáfurjettinum, að hann sje skyldur til að styrkja íslenska atvinnuvegi. En bankanum koma þessar sjóðaráðstafanir ekkert við í því sambandi, því auðvitað hefir þingið fult leyfi til þess að ráðstafa meðferð þeirra eins og því þóknast, og þeim er best borgið eins og ráð er fyrir gert í frv. sjálfu, því um brtt. er það eitt að segja, og umr. nú hafa best sýnt það, að hún er óþörf og jafnvel flm. hennar sanna það flest með ummælum sínum. (H. St.: Alt misskilningur).