28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárhagsnefndar (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf ekki að vera margorður. Að eins vil jeg drepa á nokkur atriði í ræðu hæstv. fjármálaráðherra (S. E.).

Um landsverslunina skal jeg geta þess, að jeg sje ekki annað en að það sje varlega farið í sakirnar að áætla tekjurnar eina miljón kr. af henni, vegna þess, að ekki virðist þurfa að búast við neinum halla af kolum eða salti. Auk þess átti landsverslunin í varasjóði 31. des. síðastl. 1 milj. og 200 þús. kr., og á þar að auki eftir að versla í eitt ár og sennilega græða eitthvað á því. Hvað skipin snertir, þá þóttist jeg fara varlega, að taka ekki nema 2/3 hluta af sjóðseign þeirra í árslok 1918 sem ágóða. Það kann að vera, ef skipin væru seld nú þegar, að þá mundi tapast á þeim. En jeg geng alls ekki út frá, að skipin verði seld. Jeg geri ráð fyrir, að þeim verði haldið úti áfram. Og þá þarf ekki nema 180 þús. kr. í tekjur á ári til að greiða 6% af hinu bókfærða verði, og tekjur skipanna hafa verið margfalt meiri hingað til. Jeg verð að álíta, að ekki væri hyggilegt að selja skipin nú því þau munu vafalaust gefa arð af sjer með tímanum. Með þetta fyrir augum hugði jeg hæfilegt að reikna með 2/3 hlutum af sjóðseign sem ágóða.

Um það, að tekjur og gjöld mundu standast á í árslok 1919, þá viðhafði jeg ekki sterk orð um það. Jeg sagðist vona að svo yrði. Jeg skal ekki fortaka, að spá hæstv. fjármálaráðherra muni reynast rjettari; hvorttveggja er auðvitað spádómur. En eftir því, sem útlit er fyrir nú, held jeg láti nærri því, sem jeg gat um. Jeg hefði getað tínt til ýmislegt fleira, sem styður niðurstöðu mína, t. d. að ríkissjóður hefir grætt 100 þús. kr. á þessu ári á gengismun enskrar myntar. Enn fremur má geta þess, að útflutningsnefnd hefir safnað talsverðu fje, og gæti jeg trúað, að eitthvað kæmi í ríkissjóð þaðan. Um það, að tekjurnar sjeu of lágt áætlaðar, er þess að geta, að jeg vona, að svo sje. En þær eru ekki áætlaðar varlegar en hæstvirtur fjármálaráðherra (S. E.) hefir áætlað í fjárlagafrv. sínu, og áleit nefndin það vera rjett „princip“. Tekjuskattur er t. d. áætlaður 250 þús. kr. — Það held jeg að sje of lágt. En þó vildi bæði hæstvirtur ráðherra og nefndin ekki áætla hann hærri. Eins á, að mínum dómi, að fara að með aðrar tekjuáætlanir nú. Og jeg vil setja mig alveg á móti því, að þessar áætlanir verði færðar upp, og jeg skil ekki, að hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) geri þetta að kappsmáli, því að jeg veit ekki betur en að við sjeum alveg sammála um, að rjett sje að áætla varlega.

Jeg geri mikið úr varlegri áætlun teknanna, því, að mínu viti, er það einmitt hin varlega áætlun teknanna, sem fjárhagur okkar hefir flotið á.