28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

18. mál, fasteignamat

Fjármálaráðherra (S. E ):

Jeg skal leyfa mjer að þakka hv. nefnd fyrir góðar undirtektir. Landbúnaðarnefnd Ed. gerði nokkra breytingu á frv., samkvæmt till. stjórnarinnar. Stjórninni var það ljóst, að svo mikið ósamræmi var í matinu, og þá einkum milli hinna einstöku hjeraða, að nauðsynlegt mundi að samræma matið, og af þeim ástæðum fjekk hún landbúnaðarnefndina í efri deild til þess að bera brtt. fram. Því var hreyft sem mótmælum gegn frv. í Ed., að fresturinn, sem veita á nefndinni, sje of stuttur. En matinu verður að koma af sem fyrst, og það búið að dragast óhæfilega lengi. Jeg held, að það sje því alveg rjett að halda því ákvæði í lögunum, til þess að ýta undir framgang málsins. Ef aftur það sýnir sig, að nefndin óhjákvæmilega þurfi lengri frest, þá má lengja hann með bráðabirgðalögum.