29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Pjetur Ottesen:

Jeg þarf ekki að segja mörg orð, þar sem hv. frsm. (P. Þ.) hefir þegar tekið fram, hvernig skilja beri ákvæði 9. gr. um undanþáguna.

Eins og hann tók fram, hefir þessu ákvæði verið breytt í hv. Ed. í þá átt, að þrengja það, að undanþága þessi verði veitt; en því verður ekki neitað, að þetta ákvæði er nokkuð hart, og þá sjerstaklega þegar þess er gætt, hve allar byggingar eru dýrar og erfitt að bæta úr því, sem ábótavant er í þeim efnum.

Hv. Ed. hefir sem sje felt í burtu orðin: „þar sem ekki er hæfilegt húsrúm“, í 9. gr., en með þeim hefir upphaflega verið ætlast til, að þar sem einhverjar slíkar tilfæringar eða skýli eru til — þó ófullkomið sje — ætti að leyfa mönnum að bjargast við það, þar til úr raknaði.

Ef bókstaflega eru tekin orðin: „þar sem eigi er kleift að reka fje til sláturhúss“ o. s. frv., þá má auðvitað teygja þau endalaust, því það má ef til vill segja, að kleift sje að reka fje til sláturhúss, þótt svo miklir annmarkar sjeu á því, að allur arðurinn fari í kostnað, því að rýrnun og rekstrarkostnaður getur hæglega orðið svo mikill, þar sem um langa leið er að ræða.

En eins og hv. frsm. (P. Þ.) tók fram, þá ber ekki í framkvæmdinni að taka þetta bókstaflega, heldur á að veita undanþágu þessa þar sem nauðsyn ber til.

Og í trausti þess, að hæstv. stjórn líti þeim augum á þetta atriði og sýni þá sanngirni, að þröngva ekki kosti manna í því efni framar en nauðsyn ber til, get jeg felt mig við frv. Og jeg efast ekki um það, að á þennan hátt getur þetta og vel farið saman, að hagsmuna einstaklinganna sje gætt og lögin nái tilgangi sínum.