05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Sigurður Sigurðsson:

Það verður ekki langt, sem jeg þarf að segja. Háttv. frsm. (M. P.) þykist nú hafa sópað fyrir sínum dyrum, eins og honum er lagið. Hann gat þess í byrjun svars síns, að jeg mundi hafa flutt athugasemdir mínar helst í því einu skyni, að fá tækifæri til að tala. En tæplega farast honum slík orð, og mun best fyrir hann að metast hvorki við einn nje annan um slíkt. Að minsta kosti mun flestum ljóst, hvor okkar talar meira að öllum jafnaði.

En einkennilegt er það, að þegar hann svarar máli manna, kennir altaf hinnar sömu þykkjuundiröldu, og gengur stundum svo langt, að nærri lætur, að strákskapur megi heita.

Sannmælis skal jeg unna honum og viðurkenna, að svar hans við annari athugasemd minni var rjett. En slíkt hið sama verður ekki sagt um þá staðhæfingu hans, að jeg hafi talið undirtektir háttv. nefndar undir till. mína góðar.

Það sagði jeg aldrei heldur hitt, að jeg bjóst ekki við þeim betri, jafnvel þótt öll sanngirni mælti með því, að taka þeim vel.

Jeg segi þetta ekki til þess að gera nefndinni getsakir eða áfella hana. Jeg veit að hún hefir sínar ástæður, sem eru þær, að þeir myndu margir verða, sem um slíka uppbót sæktu, ef þessi till. yrði samþykt.

Að einstakir menn hafi orðið eins hart lúti með fóðursíld sína eins og alment var þar eystra, kann vel að vera. Þar kostaði síldin ásamt uppskipun og útskipun o. s. frv. 28–29 kr. tunnan.

Þá mun það best henta, að jeg kvitti fyrir ummæli hæstv. fjármálaráðherra (S. E). Jeg skal játa, að hann var óvenjuhæglátur og faslítill er hann hjelt ræðu sína.

En ranghermi var það hjá honum, að jeg hefði sagt, að hann væri því vanur að lofa öllu og svíkja alt. Það sagði jeg aldrei, og voru því óþarfar ákúrur hans til mín fyrir það, að jeg bæri hæstv. ráðherra óleyfilegum sökum.

Jeg sagði að eins, að hann talaði stundum svo einstaklega vingjarnlega, og er síður en svo, að það sje lastvert. En hitt kemur fyrir, að menn leggja meira inn í þessi góðu ummæli hans en hann sjálfur ætlast til. Það er gömul og góð venja, að þegar traustir og áreiðanlegir menn eiga í hlut, eru orð þeirra tekin sem hálfgerð loforð, þegar þeir afsegja ekki það, sem um er beðið, heldur hafa góð orð um það.

En nú virðist hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) vera svo góðhjartaður, að hann geti ekki neitað nokkrum manni, og það er af mörgum tekið sem loforð.

En það hljóta allir að skilja, að þetta eru engar skammir.

Þá fullyrti hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), að hann hefði aldrei svikið nokkurn mann. Jeg gef nú lítið fyrir slíkar fullyrðingar.

Hann fullyrti líka hjer um daginn, að hann hefði aldrei drepið mann. Það var víst heldur enginn að bera það upp á hann.

En það verð jeg að segja af minni persónulegu reynslu, að jeg hefi þekt ýmsa menn orðheldnari en hæstv. fjármálaráðherra (S. E.).