03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vildi áður en atkvgr. fer fram um þennan kafla fjárlaganna, gera örfáar stuttar athugasemdir. Það, sem eiginlega heyrir undir mig, er tekjuhliðin, hagstofan, og svo sú almenna hlið málsins, hver niðurstaðan verður. Undir næsta kafla á undan hefi jeg talað nokkur orð um almennu hliðina, og hefi þar ekki miklu við að bæta, enda mun það ekki hafa neitt að þýða. Jeg benti á tvær leiðir til að draga úr þeim mikla, nær óverjandi, tekjuhalla. Önnur leiðin er sú, að minka útgjöldin, hin leiðin sú, að bæta hallann upp með auknum, nýjum tekjum. Af atkvgr., sem fór hjer fram í dag, fjekk jeg fullvissu fyrir því, að þessi hv. þingdeild þykist ekki sjá sjer fært að skera neitt af fjárveitingum þeim, er hv. fjárveitinganefnd hefir lagt til að veita. Hv. deild sá ekki tök á því, að draga úr fjárveitingum þeim til vegagerða, sem jeg er sammála deildinni um að eru í sjálfu sjer nauðsynlegar, en taldi hins vegar rjett að draga úr. En þar sem svo fór atkvgr. um þessi atriði er því síður ástæða til að ætla, að hv. deild muni draga úr hjer. Því að meðal fjárveitinga í þessum lið eru ýmsar upphæðir, sem ótvírætt eru eins nauðsynlegar og að mínu áliti nauðsynlegri en jafnvel vegafjeð, og skal jeg þar telja styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands og búnaðarfjelaganna, sem er aukinn, og styrkinn til Fiskifjelagsins. Hækkanir á þessum upphæðum nema 300 þús. kr., eða hjer um bil helmingnum af hækkuninni á þessum hluta fjárlaganna, sem er um 660 þús. kr. Jeg geng nú út frá því, að hv. fjárveitinganefnd muni ekki vilja draga neitt úr þessum liðum, úr því hún vildi ekki skera meira af fyrri kaflanum.

Þá eru aukin útgjöld til kvennaskólans, Blönduósskólans, bændaskólanna, lýðskólanna, Flensborgarskólans, háskólans, og nokkrir fleiri liðir, sem samtals nema um 60 þús. kr. Nú er það svo um þessa liði, að þeir mega teljast mismunandi þarfir. En eftir atkvgr. í gær að dæma má gera ráð fyrir, að hv. þingdeild muni skipa þeim í líka röð og ekki draga úr. Þetta sýnist næg bending um, að hv. deild ætlar alls ekki að draga úr hallanum á fjárlögunum.

En þá liggur í hlutarins eðli, að það er lítt verjandi, að hallinn verði svo mikill. Verður þá að snúast á hina sveifina, að reyna að auka tekjurnar með nýjum sköttum. Vona jeg, að hv. þingdeild leggi ríka áherslu á þetta atriði og verði mjög fylgjandi þeim tekjuaukafrv., sem borin kunna að verða fram. Annars mun samviska hv. deildar ekki vera mjög góð, um það er þessu þingi lýkur. Þetta voru nú þær almennu athugasemdir um málið.

Þá skal jeg minnast lítillega á það, að hv. frsm. (B. J.) sagði, að fallið hefði úr fjárlagafrv. upphæð til háskólans, líklega af vangá. Hæstv. forsætisráðherra hefir nú skýrt frá því að það hafi ekki verið af vangá, heldur hafði stjórnin gert ráð fyrir, að ofurlitlu af miljónarsjóðnum yrði varið til þess að ljetta af landssjóði byrði þeirri, er háskólinn leggur á hann. Jeg vil segja, að mjer þótti þetta ekki óeðlilegt, því að enda þótt jeg þykist vilja háskólanum alt hið besta, þá lít jeg svo á, að þótt einhverju af miljónarfjenu sje varið til þessa, þá sje þó sæmilega gert til háskólans. En annars heyrir þetta atriði ekki undir mína deild, og fer jeg því ekki út í það.

Jeg get ekki elt uppi alla þá liði, sem jeg vildi gjarnan minnast á. En ekki get jeg neitað því t. d., að þótt jeg vilji Íþróttasambandi Íslands alt hið besta, þá þykir mjer þó hv. fjárveitinganefnd mjög ríf í tillögum sínum, er hún leggur til að veita 20 þús. kr. til Olympíufarar.

Þá er enn 136. brtt. nefndarinnar, um 8800 kr. eftirgjöf á láni til Stykkishólmsbryggju. Jeg minnist þess ekki, að fram hafi komið fullnægjandi skýring frá hv. frsm. (B. J.) um það, hvernig stæði á þeirri eftirgjöf. Yfirleitt álít jeg það hollast Alþingi að gera ekki mikið að því að gefa eftir lán. Það getur dregið þann dilk á eftir sjer, að fleiri komi á eftir og krefjist hins sama.

Þá eru enn teknar hjer upp 5000 kr. til heimilisiðnaðar. Gerir hv. fjárveitinganefnd það að skilyrði, að skipaður sje sameiginlegur framkvæmdarstjóri fyrir þennan heimilisiðnað. Jeg veit nú ekki, hvort hann er beint nauðsynlegur, eða hvort það hefir nokkuð sýnt sig, að styrkur sá, sem til þessa hefir verið veittur undanfarið, hafi borið nokkurn góðan árangur. En ef þessi framkvæmdarstjóri á að fá nokkur laun að ráði, þá fer að verða heldur lítið úr þessari fjárupphæð, þegar þau hafa verið dregin frá. Þá er enn fremur gert ráð fyrir sjerstökum garðyrkjustjóra, er hefir 5000 kr. hvert ár. Jeg hefði talið rjettara að láta þetta heyra undir Búnaðarfjelagið. Það er nú svo mikilvirkur og starfhæfur maður orðinn forseti Búnaðarfjelagsins, að jeg ímynda mjer, að ekkert hefði verið því til fyrirstöðu, að hann hefði þetta starf einnig með höndum í sambandi við ráðunauta sína.

Þá hefir nefndin borið fram brtt. um að fella burtu athugasemdina við listamannastyrkinn. Jeg man, að það var jeg, sem fyrst kom þessu ákvæði inn í fjárlögin, og er jeg enn alveg sömu skoðunar og jeg var þá, að ekki sje rjett að fella þessa athugasemd burtu. Jeg verð að líta svo á, að þessi nefnd hafi, og hljóti að hafa að öllum jafnaði, meira vit á listaverkum en stjórnir þær er sitja í hvert skifti. Vil jeg því mæla með því, að þessi brtt. verði ekki samþ.

Þá er enn ein brtt., sem jeg vildi koma örlítið inn á. Það er þessi brtt. um svokallaðan „Gvend Faust“. Hún hefir nú verið tekin aftur, og vænti jeg, að það sje fyrir fult og alt. Það er sannleikur, að þessi styrkur hefir staðið nokkur ár í fjárlögunum. (G. Sv.: Hvaða styrkur?) Jeg veit hvað við er átt, og það vita allir. Þessi veiting til þýðingar á Goethes Faust, sem Bjarna Jónssyni frá Vogi hefir verið falin, hefir staðið nokkur ár í fjárlögunum. Nú er það vitanlegt, að enginn maður hjer á landi gæti unnið þetta verk nema Bjarni Jónsson frá Vogi. Þetta er ekkert oflof, heldur það eitt, sem alþjóð veit, að hann er allra manna snjallastur þýðari úr útlendum málum. (S. S.: Um þetta eru allir sammála. E. J. : Hvað líður þýðingunni?) Hv. 1. þm. Arn. (S. S.) er mjer líka sammála um þetta. En þar sem nú Bjarni Jónsson frá Vogi er þegar byrjaður og búinn að þýða allmikið af þessu verki, hvaða vit væri þá í því, að kippa að sjer hendinni nú? (S. S.: Margt hefir nú verið hætt við hálfgert, sbr. Hafnarfjarðarveginn). Jeg hefi nýlega komið heim til Bjarna Jónssonar frá Vogi, og hefir hann lesið upp fyrir mjer langan kafla, ljómandi fagran, í hinum íslenska búningi. Verð jeg að álíta það stórsynd gagnvart íslenskum bókmentum, ef hætt væri að vinna að þessu góða verki.

Mjer er annars, satt að segja, alveg óskiljanlegt, hvers vegna slík till. er fram komin. Kann að vera, að flutningsmaður hennar eigi eitthvað útistandandi við höfundinn. En jeg veit, að þessi þjóð á ekki það útistandandi við Bjarna Jónsson frá Vogi, að hún muni kunna nokkrum þingmanni þakkir fyrir flutning slíkrar till. Enda mun það sýna sig, er saga þessa lands verður rituð, að margir myndu þá vilja aldrei kastað hafa hnútum þeim að Bjarna frá Vogi, sem margir telja nú skyldu sína að gera. Skal jeg ekki orðlengja þetta frekar, en þetta verður að segjast hjer á Alþingi.

Skal jeg nú ekki fara inn á fleiri brtt. að sinni. Mjer þykir leiðinlegt, að hv. þingdeild vill ekki gera neitt til að draga úr hinum mikla halla á fjárlögunum. En einhvern tíma fær hún orð úr horni fyrir það.