03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Gísli Sveinsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera hjer fram fáeinar brtt. Fyrst er þá brtt. á þgskj. 599. Hljóðar hún um nýjan lið, til Halldórs bókavarðar Briems, til að semja og fullgera íslenska málfræði (nútíðarmálsins). Fyrir hv. fjárveitinganefnd lá erindi frá Halldóri Briem um þennan styrk, sem hjer er lagt til að veita — 1000 kr. Maðurinn fór fram á þetta fje í þeirri veru, að það myndi vafalaust nægja til að fullgera þetta verk, sem hann hefir unnið að um hríð.

Jeg hafði nú búist við því, að hv. nefnd myndi þegar í stað taka þessa fjárveitingu upp í sínar till, en svo fór þó ekki. En nú hefir hv. nefnd gert bragarbót, því að eftir orðum hv. frsm. (B. J.) að dæma hefir hún fallist á brtt. mína.

Þetta mál er þannig vaxið, að það er miklu sjáfsagðara en margt það, er hv. nefnd leggur til. Það er engum vafa bundið, að slík málfræði er miklu meir áríðandi og kemur fyr í góðar þarfir en orðabækur ýmsar, sem verið er að styrkja, og vitanlegt er um að ekki geti komið út fyr en eftir mörg ár, jafnvel tugi ára. Það er annars merkilegt, hve þolinmóðir vjer Íslendingar höfum verið, svo hreyknir sem vjer erum yfir vorri fögru og frægu tungu, að hafa nú staðið uppi málfræðilausir svo að segja alla tíð. Það má svo heita, að til sje engin fullkomin málfræði íslenskrar tungu, skrifuð af Íslendingi. Málfræði sú, sem kend er hjer í Mentaskólanum, er skrifuð af Wimmer, dönskum manni, á dönsku, og síðan þýdd á íslensku. Maður þessi hefir verið mjög vel að sjer í norrænum fræðum, en bók hans er nú mjög úrelt orðin og vandasöm mjög til kenslu, þar sem hún miðar eingöngu við eldra málið.

Hjer vantar því nú fullkomna málfræði, er allir, jafnt leikir sem lærðir, geti haft fult gagn af. Nokkur málfræðiágrip stutt hafa verið samin, sem menn hefir greint á um hve hæf hafa verið. En eitt af þessum ágripum ber öllum lærðum mönnum saman um að sje best og hentugast við íslenskunám. En það er málfræðiágrip Halldórs Briems. Það hefir hlotið bestan orðstír meðal lærða manna, sem kent hafa íslensku.

Jeg skal í þessu sambandi minnast á, að með umsókn H. Br., sem legið hefir bæði fyrir Alþingi og nefndinni, fylgdu vottorð frá tveimur lærðum mönnum, sem kunnugt er um það, sem þessi maður hefir áður unnið í þessari grein. Önnur meðmælin eru frá magister Sigurði Guðmundssyni, sem er kennari við Mentaskólann í íslensku og er álitinn mjög fær kennari og ágætur. Segir hann um málfræðiágripið sem kenslubók: „Þykir mjer ágrip þetta langhentugasta kenslubókin, sem kostur er nú á í frumatriðum móðurmáls vors. Hún er hæfilega löng, skilgreiningar á höfuðhugtökum málfræðinnar skýrar og gagnorðar.“ Sömuleiðis segir Sigurður Nordal prófessor um þetta ágrip, sem auðvitað er ekki nema lítið brot, í samanburði við þá bók, sem í smíðum er: „Hann má vafalaust að öllu samantöldu telja skýrasta og besta kenslubók í þeirri grein handa alþýðuskólum.“ Þessir tveir vitnisburðir nægja til að sanna, að það, sem þessi maður hefir þegar gert, hefir hlotið einróma lof þeirra, sem þurft hafa á bók hans að halda og þar af leiðandi eru málinn kunnugastir. Nú er tilætlunin sú, að hin nýja bók verði svo fullkomin, að hana megi nota við æðri skóla, svo sem mentaskólann. Ætti hún þar að koma í stað „Wimniers“. sem nú er kendur þar.

Þessi bók Halldórs Briems á að innihalda það, sem flestar málfræðisbækur ella greina, svo sem hljóðfræði, orðfræði og orðmyndunarfræði. Stærð hennar er áætluð um 30 arkir. Það þarf enginn um það að efast, að þessi maður muni vera með þeim færustu til þessa af þeim, sem völ er á. Hefir hann iðkað málfræði um mörg ár og hefir sjerstakan áhuga á að gera bókina hvorttveggja í senn, vísindalega og alþýðlega; byggingin verður á vísindalegum grundvelli, en svo ætlast hann til, að framsetningin verði svo alþýðleg að hver sæmilega þroskaður maður geti haft not af henni, ef hann óskar þess. Þykist jeg af töldum ástæðum vita, að þessi till mín muni fá góðar undirtektir í hv. deild.

Þá kem jeg að brtt. minni á þgskj. 600. Fer hún fram á að hækka styrkinn til Freysteins Gunnarssonar úr 2000 kr. upp í 4000 kr. Þessi maður, sem er kandidat í guðfræði og er einnig hv. þm. að nokkru kunnur, þar sem hann hefir starfað hjer í nokkur ár við þingið, sótti hingað um utanfararstyrk, 3000 kr. hvort árið, eða 6000 kr. yfir fjárhagstímabilið. Það, sem hann ætlast fyrir, er að nota 2 ár til að ferðast um, fyrst um Norðurlönd og þá í Bandaríkjunum, og kynnast alþýðumentun og skólafyrirkomulagi. Það mætti nú virðast svo, sem við Íslendingar hefðum eitthvað af þess háttar mönnum úr að moða, sem vel væru að sjer í kenslumálum, og má það vel vera: en hitt er víst, að þeir munu fleiri vera sem þykjast vera það, heldur en þeir, sem í raun og sannleika eru það. En um þennan mann er mjer óhætt að segja, að jeg hygg hann vera mann, sem fremur vilji vera en þykjast. Það sýnir hans fortíð og meðmælin frá kennurum hans, og er þó maðurinn enn ungur. Hann hefir í langan tíma haft brennandi áhuga á þessum málum. Auk þess, að hann hefir nú lokið prófi hjer við háskólann með góðum vitnisburði, hefir hann áður gengið í gegnum kennaraskólann og lokið prófi við hann með miklum orðstír. Hefir hann lagt á sig alt þetta erfiði með það eitt fyrir augum, að geta síðar meir frætt aðra og miðlað þeim af þekkingu sinni. Hann hafði aldrei ætlað sjer að ganga mentaveginn til þess eins, að hljóta síðar embætti, heldur til þess að verða færari sem fræðari annara. Jeg leyfi mjer að vísa til meðmæla, sem um nokkurn tíma hafa legið frammi í lestrarsal og eru frá valinkunnum mönnum, svo sem sjera Magnús Helgason o. fl. Hann segir meðal annars, um leið og hann bendir á, að til slíkra manna þurfi vel að vanda, og að til slíkrar farar þurfi að velja menn, sem bæði hafi vit og vilja: „Frá því sjónarmiði er mjer sjerstaklega ljúft að mæla með Freysteini, því að jeg þekki hann vel og tel hann einkar vel til fallinn, fyrir margra hluta sakir“. Hann getur þess, þessi kennari, að Freysteinn sje af alþýðubergi brotinn og kunnugur bæði sveit og kaupstað. Hann getur þess líka, að hann hafi þá bestu undirbúningsmentun til þess starfs, sem völ er á hjer, og hann bendir líka á að hann sje námsmaður ágætur. Enn fremur segir hann, að kenslustörf láti Freysteini einkar vel, enda hafi hann altaf kent, jafnframt því, sem hann sjálfur stundaði nám, og unnið þannig fyrir sjer. Nú vil jeg leyfa mjer að lesa upp það, sem sjera Magnús Helgason enn segir: „Frá því er hann var hjer á kennaraskólanum, hefir hann stöðugt að því marki stefnt, að gefa sig allan við kenslumálum, og því jafnan síðan lagt mestu stund á þau fræði, er þar koma best að haldi, íslenska tungu, uppeldisfræði, sálarfræði og siðafræði“. Hann telur áfram, að samkvæmt sinni þekkingu megi óhikað mæla með Freysteini því að hvar sem hann hafi dvalið hafi hann „getið sjer traust manna og vinsældir fyrir góðgirni sína og siðprýði.“ Væntir þessi mentaði maður að þingið veiti Freysteini þann styrk, sem hann biður um.

Auk þessara meðmæla fylgja einnig meðmæli frá Ágústi Bjarnasyni, prófessor, og segir þar meðal annars: „Freysteinn er ágætlega vel gáfaður maður og athugull, vandaður, stiltur og viðmótsþýður; svo að hann að eðlisfari er vel til þess fallinn að verða leiðtogi og fræðari ungra manna“. Mælir þessi maður og mjög með því, að hann fái nú að fræðast betur, og telur það mundi verða alþýðufræðslu á Íslandi að miklu haldi.

Þá fylgja og enn meðmæli frá Ögmundi skólastjóra Sigurðssyni í Flensborg. Þar hafði Freysteinn verið við kenslu síðastliðinn vetur, eftir að hann útskrifaðist af háskólanum, og getið sjer hinn besta orðstír. Þar segir meðal annars: „Og mjer er ljúft að geta þess, að hann hafði eigi að eins mikla og staðgóða mentun, en var auk þess æfður kennari, með ágætum kennarahæfileikum, prúður og þýður í viðmóti, hafði einkar gott lag á því, að halda vakandi eftirtekt nemenda sinna, og þess vegna gott vald yfir þeim“.

Jeg hefi nú, eins og áður segir, lagt það til, að styrkurinn, sem nefndin áætlar 2000 kr. í stað 6000 kr., er Freysteinn fór fram á, verði nú hækkaður upp í 4000 kr. og veittur að eins annað árið. Jeg fer hjer hinn gullvæga meðalveg og þykist vita, að hv. þm. muni fylgja mjer að málum þá leið. — Það gefur auðvitað að skilja að þessi styrkur þótt veittur væri, eins og um var beðið, er ekki nærri nógu mikill, en umsækjandi hefir von um að geta aflað sjer til viðbótar nokkurt fje á annan hátt. En hvað viðvíkur þessum 2000 kr., þá gera þær lítið gagn, og koma 4000 kr. þó fremur að haldi.

Það sem Freysteinn stefnir að, er ekki að eins að kynnast kenslumálum, heldur hefir hann annað fyrir augum og er það að ef stofnaður yrði hjer á Suðurlandi fyrirmyndaralþýðuskóli sem líklegt þykir, þar sem slíkir skólar eru nú komnir upp í öðrum fjórðungum, þá hefir hann í hyggju að gefa kost á sjer sem kennara við þann skóla. Það er fullreynt, að ekki þýðir að hugsa til að stofna slíka skóla nema hægt sje að fá vel hæfa menn til þeirra. Það verður því í þessu sem öðru, að vera eitt af okkar aðaláhugamálum að ala upp menn, sem geta tekist hin vandasömustu störfin á hendur. — Jeg tel það alkunnu, að hjer á Suðurlandi er hugsað um að stofna slíkan skóla; aðrir fjórðungar hafa fengið þá, og virðast þó skilyrðin ekki vera verri hjer syðra en þar. Býst jeg við að þeir, sem hjer eiga hlut að máli, vildu mikið til vinna að fulltrúar þeirra styddu þennan mann til frama er sjerstaklega hefði í hyggju að helga krafta sína þessum skóla. Þá má og ætla, að skólinn yrði ekki að eins fyrirmyndarskóli í orði heldur og á borði. Vona jeg, að hv. þm. sjái, að hjer er um nauðsynlegt mál að ræða og jeg vona að hv. þm. úr öðrum fjórðungum álíti, að þótt hjer sje aðallega um Suðurland að ræða, þá hljóti alt landið gagn af framgangi slíkra skóla. Þetta snertir framtíð landsins í víðtækari skilningi og á því ekki við að synja um lítilfjörlega fúlgu til þessa manns.

Þá á jeg enn litla brtt. við fjárlagafrv. Er hún um styrk til Páls Þorkelssonar. Hæstv. stjórn ætlar þessum manni 400 kr. hvort árið, til þess að vinna áfram að málsháttasafni sínu. Það gefur að skilja að 400 kr. er lítið sem ekki neitt fyrir slíkt starf. Þetta er ekki meira en á annað hundrað krónur fyrir stríðið, eftir þeim mælikvarða sem við leggjum á krónuna, og þótti slík upphæð ekki há þá, og býst jeg því við, að hún þyki það ekki enn. Þetta verk hefir bæði menningarlegt og málfræðilegt gildi, því að þessi maður vinnur ekki að eins að því að safna sem flestum samstæðum málsháttum úr mörgum tungumálum, heldur og að hinu, að gera skyldleika þeirra skýran. Jeg hefi því lagt til að þessum manni yrðu veittar 1000 kr. hvort árið, og til vara 800 kr. — Jeg vona að hv. þm. styðji þessa brtt., þótt hún miði til nokkurs útgjaldaauka, sem þó verður aldrei meiri en örfá hundruð.

Nú vil jeg nokkuð minnast á síðustu brtt. mína, og miðar hún að því, að bæta upp það, sem hv. þm. kynni að finnast jeg hafa syndgað með hinum brtt. Í þessari brtt. er sem sje farið fram á að spara 6000 kr. fyrir ríkissjóð, án þess þó að sá missi nokkurs í, er styrkinn á að fá, því að það, sem hann misti við þessa brtt., er honum ætlað að fá úr öðrum stað. Á þessa brtt. hefir nefndin fallist og á hún þakkir skilið fyrir það.

Till. þessi fer fram á, að í stað þess að veita cand. polit. Jóni Dúasyni 6000 kr. hvort árið úr ríkissjóði, til þess að kynnast bankamálum erlendis, komi, að hann fái 6000 kr. úr ríkissjóði, en svo greiði Landsbankinn honum aðrar 6000 kr. frá sjer. Þessi maður fær því sömu upphæð, en þó sparar ríkissjóður á þessu sem sagt 6000 kr. Sá ungi maður, sem hjer um ræðir, hefir nýlega lokið hagfræðisprófi við Hafnarháskóla, og hefir hann lagt þar mesta stund á bankamál: er það vafalaust eitt af þeim málum, sem okkur kemur best að mannast í. Eftir því sem jeg hefi sannfrjett, er þessi maður duglegur til náms og sjerstaklega ástundunarsamur. Hefir hann og eins og kunnugt er sýnt áhuga talsverðan á almennum málum, og þótt misjafnir hafi verið dómar manna um skoðanir hans, og jeg sje honum ekki sammála, vil jeg þó viðurkenna þennan áhuga hans Þá hefir og þessi maður síðan er hann kom heim, látið sjer sjerlega ant um Landsbankann. Eins og kunnugt er var hjer í hv. deild fyrir skömmu á ferðinni deilumál, sem þó hefði ekki átt að vera deilumál, er snerti talsvert Landsbankann. Var það málið um seðlaútgáfurjett honum til handa. Þessi ungi maður tók þegar þátt í deilunni, og skrifaði meðal annars um málið í opinberu blaði, enda hefir það frjest, að hann muni hafa verið aðalráðunautur Landsbankastjórnarinnar í þessu. Jeg var ósamþykkur þeirri niðurstöðu, sem hann komst að. sem sje, að því er virtist, að lítið væri í seðlaútgáfurjettinn varið, og tel jeg að hann hafi farið þar mjög villur vegar og finst mjer, að því fremur sje þörf, að hann afli sjer meiri þroska og þekkingar í þessu máli. Hitt efast jeg ekki um, að hann hafi gert þetta með það eitt fyrir augum, að vilja styðja Landsbankann og vernda hann frá því, sem hann taldi hættulegt, og má því ekki telja áhuga hans í þessu máli lastsverðan. Af því, sem sagt hefir verið, tel jeg sjálfsagt, að styrkurinn verði honum veittur, og geri jeg ráð fyrir, að hann, að aflokinni utanferðinni, gangi í þjónustu landsins eða Landsbankans.

Sparnaðurinn, sem verður við þessa till., ef hún verður samþykt, gerir meira en að vega upp á móti þeim útgjöldum, sem hinar till. valda, og vænti jeg því þess, að þær verði allar samþyktar.